Píratar boða ekki til kosninga

Sigmundur Davíð segist hafa lent í baráttu við það sem …
Sigmundur Davíð segist hafa lent í baráttu við það sem mætti kalla "vinstri rétttrúnaðinn" mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þótt Píratar hafi haft eitt og annað áhugavert fram að færa og hafa gert umræðuna áhugaverðari, þá finnst mér í auknum mæli gæta hroka hjá þeim,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi alþingismaður og formaður Framsóknarflokksins, þegar hann er spurður út í ummæli þingkonu Pírata, Ástu Guðrúnar Helgadóttur, um að engin mál muni komast í gegnum þingið ef ekki verði strax og þingið komi saman komist að niðurstöðu um hvenær í haust verði kosið.

„Það hefur ekki skánað eftir að þeir fóru að telja sig talsmenn almennings og rödd fólksins. Það er reyndar einkenni flokka á jaðrinum í stjórnmálum. Það er hættuleg þróun hjá Pírötum að þeir fari að ímynda sér að það sé þeirra að boða kosningar.“

Þannig að þú vilt alveg eins halda kosningar næsta vor eins og upphaflega var áætlað?

„Það fer eftir því hvort við náum að klára þau verkefni í haust sem var lagt upp með eða ekki.“

 Loforð um kosningar var gefið í samhengi við það að klára málin á þingi

En það er ekki aðeins Ásta sem kallar á kosningar í haust heldur lofuðu bæði Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kosningum í haust, þótt þeir nefndu ekki nákvæma dagsetningu?

„Þá bara minni ég á að þegar talað var um þetta að flýta kosningum að þá var það alltaf sett í samhengi við að það þyrfti að klára málin. Það næsta sem gerðist var að stjórnarandstaðan hélt sig við vantrauststillöguna. Eftir það hefur skort töluvert á að stjórnarandstaðan ýti undir að þessi verk klárist sem þarf að koma í gegn. Píratar tala eins og stjórnin eigi ekki að fá tækifæri til að klára verkefnin. Þeir tala um að taka þingið í gíslingu. Þá er þetta farið að snúast um að þeir séu að eigna sér þingið og stöðva það sem ríkisstjórnin vill klára og þá er þetta búið að snúast í andhverfu sína.“

Er ekki erfitt að bakka út úr því að kjósa í haust?

„Á Íslandi er kjörtímabilið fjögur ár. Það eru ekki nema tvær ástæður fyrir stjórnarslitum, það er annars vegar ef stjórnarmeirihlutinn heldur ekki og hins vegar ef að stjórnin telur sig hafa lokið verkefni sínu og að það sé orðið tímabært að boða til nýrra kosninga.

Ég sé engin merki þess að stjórnin sé að falla. Er stjórnin að ná að klára sín verkefni? Ég get ekki séð að svo sé. Það má ekki gleyma kjósendum sem studdu okkur. Við höfum ekki siðferðislegan rétt til þess að boða til kosninga í haust nema menn séu búnir að klára það sem þeir lofuðu.“

Nú ertu búinn að kveikja verulega forvitni hjá manni, um hvernig þú ætlir að beita þér?

„Ég met stöðuna hverju sinni hvað mér finnst best til þess fallið að ná verkefnunum fram.“

Hvernig muntu beita þér?

„Á hvaða hátt sem ég get, ekki aðeins út á við heldur einnig innávið. Stjórnmálaflokkur þarf á því að halda að flokksmenn séu með í slagnum. Ég mun beita mér fyrir því. Hvað ríkisstjórnina varðar mun ég hafa aðkomu að því hvernig þetta gengur fyrir sig. Nú er kominn sá tímapunktur að huga að því daglega hvernig við ætlum að taka á þessum málum.“

Er útilokað að þú farir aftur í ríkisstjórn á þessu kjörtímabili?

„Ég met það hverju sinni hvað er best til að ná framgangi mála og mun gera það á hverjum degi. Það er mikilvægast.“

„Ég ætla ekki að halda því fram að ríkisstjórnin hafi …
„Ég ætla ekki að halda því fram að ríkisstjórnin hafi staðið sig fullkomlega. En vissulega hefði sumt mátt gera betur. Við hefðum mátt gera betur í því að hrista upp í kerfinu. mbl.is/Árni Sæberg

Þú segist reikna með hörðum viðbrögðum við endurkomu þinni en nú voru líka margir óánægðir í Framsóknarflokknum á sínum tíma, má ekki búast við hörðum viðbrögðum frá þeim?

„Jú, á sínum tíma þegar hvað mest gekk á voru nokkrir einstaklingar sem voru mjög óánægðir. Það er ekki óeðlilegt í 12.500 manna flokki. Í millitíðinni hef ég ferðast um landið og hitt hundruð manna og finnst hljóðið í þeim gott. Þetta ferðalag hefur gengið afskaplega vel. Þótt ég hafi verið bjartsýnn á þetta fyrirfram þá hefur þetta verið miklu betra en ég bjóst við. Framsóknarmenn vilja fá að berjast.

Nú þarf flokkurinn að standa í því að klára það sem útaf stendur. Frá því að ég byrjaði í pólitíkinni þá hafa alltaf verið einhverjir sem gagnrýna og það er eðlilegt. Á síðasta flokksþingi fékk ég 98%, en það er ekki 100%, það eru alltaf einhverjir sem vilja eitthvað annað.“

Í vor sagði núverandi forsætisráðherra við Morgunblaðið að ríkisstjórninni hefði mistekist að eiga samtal við þjóðina. Er þetta rétt að þínu mati?

„Já, það er svolítið til í þessu hjá honum. Við höfum vanrækt samtalið. Við höfum vanrækt að koma upplýsingum til skila. Við vorum of upptekin við að fást við viðfangsefni frá degi til dags. Við hefðum átt að gera meira af því að tala við almenning og okkar flokksfólk. Við gleymdum því stundum að það er mikilvægt í stjórnmálum að segja meira frá því hvað við erum að gera og þar megum við bæta okkur.“

Mistókst ríkisstjórninni eitthvað að þínu mati? 

„Ég ætla ekki að halda því fram að ríkisstjórnin hafi staðið sig fullkomlega. En vissulega hefði sumt mátt gera betur. Við hefðum mátt gera betur í því að hrista upp í kerfinu. Okkur var líklega of umhugað um að koma á stöðugleika en hefðum átt að fara meira í það að hugsa stjórnkerfið uppá nýtt. Stjórnkerfið er ekki nógu skilvirkt. 

Það er ekki hægt að kenna embættismönnum um það. Það er á ábyrgð stjórnvalda að stokka það upp þannig að það virki sem best fyrir almenning. Aftur komum við að því að við höfum sökkt okkur of mikið í ákveðin verkefni en ekki sinnt kerfisþáttum á meðan. Ég hefði viljað sjá meiri nútímavæðingu stjórnkerfisins, við ræddum þetta oft. Til dæmis var komin af stað hugmyndavinna um breytingar á stjórnkerfinu í forsætisráðuneytinu.

Til dæmis eins og þegar venjulegt fólk er að bregðast við kröfum stjórnvalda, að þá geti það farið á einn stað. Enn er þetta þannig að menn þurfa að fara sjálfir á ólíka staði til að leysa úr sínum málum. Kerfið er of þungt í vöfum.“

Hvað skóp svona ofsalega sterka gagnrýni á þig persónulega?

„Henni hef ég vanist alveg frá því ég byrjaði í stjórnmálum, alveg frá fyrstu viku. Ég hef stundum verið afdráttarlaus í því hvað ég teldi að ætti að gera og mætti ekki gera.

Svo hef ég stundum gert suma ergilega með því að benda á eitthvað sem ég lít á sem staðreyndir en er viðkvæmt mál hjá andstæðingnum. Ég bendi stundum á innihaldsleysi málflutnings þeirra og bendi á að keisarinn sé ekki í neinum fötum. 

Þegar ég hef gert þetta á þessum nótum og farið gegn pólitískri rétthugsun þá er það voða viðkvæmt. Þetta er ekki bara vandamál á Íslandi.

Á þeim tíma sem ég hef verið í stjórnmálum hef ég oftar en ekki lent í baráttu við það sem mætti kalla vinstri rétttrúnaðinn þá hefur þetta verið vandamál að það pirrar það fólk að það sé verið að draga fram staðreyndir. Þeir sem leyfa sér að tala með jafn hreinskilnum hætti og ég reyni að gera mega líklega eiga von á því að fá á sig persónulegar árásir.“ 

Mun bjóða sig aftur fram í NA-kjördæmi

Veist þú eða einhver annar hvað stjórnarandstaðan nákvæmlega vill - hvert er hennar ætlunarverk?

„Ég hef ekki heyrt önnur áform stjórnarandstöðunnar en að hún vilji koma ríkisstjórninni frá. Nú er veruleg hætta á því að við taki ríkisstjórn þriggja, fjögurra flokka, þar sem hver flokkur sinnir sínum áhugamálum og síðan er peningum eytt.

Staðreyndin er sú að það er nóg af peningum til í ríkissjóði dag. Staðan hefur batnað verulega. Það er raunveruleg hætta á að næsta ríkisstjórn verði skipuð með hrossakaupum á milli flokka og svo peningaeyðslu til að kaupa frið inná milli.“

Hyggstu bjóða þig aftur fram í NA-kjördæmi eða færa þig suður á bóginn, eins og talað er um?

„Það hefur ekki hvarflað að mér að gera breytingar á því. Mér líður vel í NA-kjördæmi, ég sé ekki neitt annað fyrir mér en að starfa með því  fólki.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert