Reisi sína eigin byggingu við Keflavíkurflugvöll

„Ég skil ekki þessa umræðu og tel hana á villigötum …
„Ég skil ekki þessa umræðu og tel hana á villigötum enda liggur fyrir mjög gott „masterplan” um stækkun Keflavíkurflugvallar,” segir Skúli Mogensen, forstjóri WOW air. Rax / Ragnar Axelsson

Það kemur til greina að flugfélagið WOW air reisi sína eigin farþegabyggingu við Keflavíkurflugvöll. „WOW hefur mikinn áhuga á því að byggja eigin „terminal“ á núverandi flugvallarsvæði. Það er alþekkt fyrirkomulag og nokkuð sem við hefðum áhuga á að skoða og ég hef áður nefnt,“ segir Skúli Mogensen í samtali við Túrista.

Hann er þó ekki á því að það eigi að byggja nýjan flugvöll í Hvassahrauni en Fréttatíminn greindi frá því á dögunum að tilraunaflug á vegum Icelandair hæfist þar á næstunni. Er tilgangurinn sá að kanna möguleikann á að reisa þar innanlandsflugvöll sem gæti einnig þjónustað millilandaflug.

„Ég skil ekki þessa umræðu og tel hana á villigötum enda liggur fyrir mjög gott „masterplan“ um stækkun Keflavíkurflugvallar,“ segir Skúli í svari til Túrista. „Það að ætla að byggja annan alþjóðlegan flugvöll, bókstaflega í bakgarði Keflavíkurflugvallar, á sama tíma og verið er að meira en tvöfalda flutningsgetuna þar, getur ekki verið skynsamlegt. Mér vitandi eru engin flugfélög, alla vega í hinum vestræna heimi, sem byggja og reka eigin flugvelli og hef ég enga trú á að Icelandair ætli að fara þá leið enda væri það skelfileg fjárfesting að reisa annan flugvöll við hliðina á þeim sem fyrir er,“ bætir Skúli við.

Eins og greint hefur verið frá stendur til að stækka Flugstöð Leifs Eiríkssonar verulega á næstu árum. Skúli ítrekar í svari sínu til Túrista að mikilvægt sé að það verkefni komist á fullt. „Það á að vera eitt helsta forgangsverkefni ríkisins að tryggja að sú áætlun standist enda gríðarlegir hagsmunir fyrir ríkið og okkur öll að tryggja áframhaldandi stækkun Keflavíkurflugvallar. Ferðaþjónustan er orðin langstærsta tekjulind þjóðarinnar og við sjáum öll hvað innviðirnir eru orðnir veikir. Við megum engan tíma missa í að hrinda þeim framkvæmdum af stað af fullum krafti og tryggja aukna flutningsgetu og betri aðstöðu til að geta þjónustað farþega og áhafnir sem allra best.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert