Rúða við hlið bílstjórans brotnaði

Rúðan við hið bílstjórans brotnaði við að spegill slóst í …
Rúðan við hið bílstjórans brotnaði við að spegill slóst í hana. Mynd/Lögreglan á Vesturlandi

Sjö umferðaróhöpp urðu á Vesturlandi í síðustu viku án teljandi meiðsla á fólki. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Vesturlandi. Meðal annars skullu saman speglar á rútu og vöruflutningabíl á Snæfellsnesvegi. Hliðarrúðan í rútunni brotnaði við hlið ökumannsins en engan sakaði.

Rútan var þétt setin af ferðamönnum og var fengin önnur rúta fyrir ferðamennina til að halda áfram ferð þeirra.

Á golfvellinum að Hamri ofan Borgarness lenti óheppinn kylfingur í því að slá golfbolta í stein með þeim afleiðingum að boltinn skaust aftur í höfuð mannsins af miklu afli. Féll maðurinn við og var færður á sjúkrahús til aðhlynningar. Talið er að meiðsl hans hafi verið minni háttar, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni.

Lögreglan þurfti einnig að hafa afskipti af frönskum ferðamönnum sem voru að sigla á kajak og þvo fötin sín í Bjarnadalsá í Norðurárdal í Borgarbyggð. Frakkarnir voru komnir á þurrt þegar lögreglan náði tali af þeim. „Var þeim gerð grein fyrir því hvernig menn ættu að haga sér hérlendis varðandi þvotta og siglingar,“ segir í dagbók lögreglunnar.

Á hátíðinni Á góðri stundu í Grundarfirði varð ungt par fyrir því óláni að járngrind valt yfir þau þegar þau voru að klifra á athafnasvæði við hliðina á hátíðarsvæðinu. Var parið flutt á sjúkrahús til aðhlynningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert