Selur fornbílinn til að hjálpa börnum

„Þetta snýst bara um að þessi bíll komist á góðan stað og að það sé hægt að gera eitthvað gott í leiðinni,“ segir Sæmundur Jóhannsson, sem auglýsti í gær tæplega 50 ára gamlan Saab-fornbíl til sölu. Allan ágóða af sölunni hyggst hann senda á munaðarleysingjahæli í Kongó í Afríku, en hann segir börnin mun frekar þurfa á peningnum að halda en hann sjálfur.

Fór heim í bílnum af fæðingardeildinni

Bílinn keypti faðir Sæmundar nýjan árið 1967 og hefur hann verið í eigu fjölskyldunnar síðan. „Ég fór meira að segja í honum heim af fæðingardeildinni,“ segir Sæmundur, sem er 43 ára gamall. „Pabbi keypti hann nýjan og hugsaði um hann eins og barnið sitt.“

Þegar faðir Sæmundar lést í febrúar síðastliðnum féll bíllinn í hlut Sæmundar. Þrátt fyrir að hann hafi upprunalega ætlað að eiga bílinn ákvað hann frekar að nýta hann til að láta gott af sér leiða.

Ekki hægt að útskýra ástandið í orðum

Sæmundur kynntist Kongó þegar hann byrjaði að fara þangað vegna vinnu fyrir tveimur árum og hefur hann ekki getað lokað augunum fyrir ástandinu þar síðan. „Það eru erfiðir tímar þarna núna. Það er eiginlega ekki hægt að útskýra það í orðum hvernig þetta er. Fólk skilur það ekki nema upplifa það sjálft,“ segir hann.

Eftir að hann byrjaði að ferðast til landsins fór hann að velta því fyrir sér hvað hann gæti gert til að hjálpa og fór fljótlega að senda barnaföt og aðrar vörur á munaðarleysingjahælið. Síðar kom upp sú hugmynd hjá honum að safna gleraugum hér á landi og senda út svo fólkið á svæðinu gæti búið til peninga.

Hefur safnað sjö þúsund gleraugum

„Ég er núna búinn að safna um sjö þúsund gleraugum hérna heima og senda út. Það eru nunnur sem selja gleraugun á um fimm evrur og búa þannig til pening. Þetta verður svo að mat fyrir börnin,“ útskýrir hann.

Hann hefur fengið liðsinni víða og hafa fjölmörg fyrirtæki hér á landi gefið honum gleraugu. „Þó að gömul gleraugu séu nánast rusl hér á landi þá eru þetta gullstangir í augum þeirra,“ segir hann og bætir við að hann hafi einnig unnið með Icelandair og WOW air til að koma gleraugunum út. „Ég er búinn að fá mikla hjálp hvert sem ég hef leitað.“

Ólga í landinu bitnar á munaðarleysingjahælum

Sæmundur starfar ekki lengur í landinu, en þar er mikil ólga um þessar mundir. „Forsetinn vildi vera áfram í landinu eins og gengur og gerist í Afríku. Því hafa fylgt mikil átök sem bitna á þessu öllu saman. Öll vestræn samtök eru komin í burtu og það bitnar á munaðarleysingjahælum því ríkið borgar ekki neitt í þetta, heldur er þessu haldið uppi af frjálsum framlögum,“ segir hann en bætir við að vissulega sé enn fólk á svæðinu sem gerir það sem það getur til að hjálpa.

Þrátt fyrir að hann starfi ekki lengur í Kongó sendir hann enn þá kassa af gleraugum þangað og hyggst halda því áfram. „Þetta er svo auðvelt fyrir mig en gerir svo mikið fyrir þetta fólk. Gleraugun búa til pening um leið og svo sér maður líka gamalt fólk fá sjónina aftur. Það er ómetanlegt.“

Sæmundur vonast til þess að ágóði af bílnum geti gert það sama og gleraugnasalan, en peningurinn fer í mat og uppihald fyrir börnin á munaðarleysingjahælinu. Sæmundur óskar nú eftir tilboðum í bílinn og er hægt að senda honum tilboð á saemundur@yahoo.com.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert