Bjóða upp á fyrstu skipulögðu pokémonferðirnar

Pokémon-þjálfarar Reykjavik Excursions niðursokknir í undirbúningi ferðarinnar með þeim Norton …
Pokémon-þjálfarar Reykjavik Excursions niðursokknir í undirbúningi ferðarinnar með þeim Norton og Puffy.

Rútuferðir um Reykjavík eru venjulega ekki eitthvað sem freistar Íslendinga, en það gæti þó breyst með sérstökum fjögurra klukkustunda pokémonferðum sem farnar eru um bestu veiðisvæði borgarinnar, en sannkallað pokémonæði hefur gripið landsmenn undanfarið.

Ferðaþjónustufyrirtækið Reykjavík Excursion stendur fyrir ferðunum og hefur látið hanna fyrstu íslensku pokémonana af því tilefni. Einar Bárðarson, rekstrarstjóri Reykjavík Excursion, segir markaðsstjóra fyrirtækisins, Sif Helgadóttur, eiga heiðurinn af hugmyndinni.

„Hún kom með þessa hugmynd um tveimur dögum eftir að þetta æði var skollið á. Við gömlu mennirnir vorum hins vegar ekki alveg að kveikja á þessu,“ segir hann. Fréttir af vinsældum farsímaleiksins um heim allan, þar sem m.a. hafi frést af fólki keyrandi utan í lögreglubíla á pokémonveiðum, hafi hins vegar orðið til þess að þeir ákváðu að slá til.

„Við erum yfirleitt mun íhaldssamari og venjulega tekur lengri tíma að setja saman nýjar dagsferðir, en okkur langaði til að verða fyrsta ferðaþjónustufyrirtækið í heiminum til að bjóða upp á skipulagða pokémonferð,“ segir Einar og kveðst ekki vita til þess að aðrir hafi boðið upp á slíkar ferðir áður. „Og nú er þetta að verða veruleika.“

Pokémonferðirnar verða í boði allar helgar og verður fyrsta ferðin farin næsta föstudag, en lagt verður af stað frá BSÍ klukkan 13.

„Það verður ekið um þá staði í borginni þar sem vinsælustu og verðmætustu pokémonarnir halda sig,“ segir Einar. Íslenskir pokémonþjálfarar sem hafa spilað venjulega leikinn um árabil verða með í för, en þeir hafa að sögn Einars undanfarið unnið með ferðasérfræðingum fyrirtækisins að skipulagningu ferðarinnar. „Menn fara hratt yfir og ná mörgum pokémonum í þessari ferð.“

Hann segir ferðina hugsaða bæði fyrir Íslendinga og eins fyrir erlenda ferðamenn.

Fyrirtækið lét líka hanna fyrstu íslensku pokémonana í tilefni þessarar nýstárlegu ferðar. Það eru lundinn Puffy, íslenski hesturinn Norton og hrúturinn Rampage. Einar segir ekki enn hægt að veiða þá Puffy, Norton og Rampage í Pokémon Go, en fyrirtækið hafi viljað geta notað þá í kynningarefni fyrir ferðirnar. „Svo er aldrei að vita nema við komum þeim inn í leikinn seinna meir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert