Sótti veikan sjómann

Af vef Landhelgisgæslunnar

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út til að sækja veikan sjókmann en þurfti að gera hlé á ferð sinni bæði til og frá skipinu þar sem óttast var að maður hefði farið í sjóinn í Önundarfirði.

Frá þessu greinir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni:

„TF-GNÁ, þyrla Landhelgisgæslunnar, fór í gærkvöld að sækja veikan sjómann um borð í skipi á Vestfjarðamiðum. Er þyrlan var á leið að skipinu kom beiðni frá lögreglu í gegnum stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um aðstoð þyrlu við leit að manneskju sem sést hafði á sundi innst í Önundarfirði.

Var þyrlan þá stödd rétt um 10 sjómílur frá þeim stað. Haft var samband við skipið sem verið var að sigla til móts við og þess óskað að það héldi áfram för sinni til Ísafjarðar meðan þyrlan héldi til leitar í Önundarfirði og síðan kæmi þyrlan að skipinu að lokinni leit.

Rúmlega hálftólf í gærkvöld var þyrlan komin á vettvang leitarinnar og kom áhöfnin þá strax auga á rekald í sjónum sem áhöfnin mat að gæti verið það sem talið var hafa verið sundmaður. Leitaði þyrlan nánar á svæðinu en ekkert fannst. Var lögregla upplýst og hélt þyrlan því í átt að skipinu til að sækja veika sjómanninn. Gekk það vel og var hann hífður um borð í þyrluna í sjúkrabörum.

Á leið sinni til baka rétt eftir miðnætti var þess óskað að þyrlan kæmi aftur til leitar í Önundarfirði þar sem þrjú reiðhjól hefðu fundist nálægt fjörunni sem og fótspor. Flaug því þyrlan strax á vettvang með skipverjann um borð sem var sinnt af lækni þyrlunnar meðan á flugi stóð. Leitaði þyrlan vandlega á vettvangi en ekkert fannst. Höfðu þá einnig eigendur reiðhjólanna komið fram. Eftir um klukkutíma leit hélt þyrlan til Ísafjarðar til eldsneytistöku og á sama tíma ákvað lögregla að leit skyldi hætt. Hélt því þyrlan frá Ísafirði til Reykjavíkur og lenti með veika sjómanninn rúmlega hálfþrjú í nótt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert