Spennandi val að minnka kjötneyslu

Harpa Stefánsdóttir veitir lesendum innsýn í fjölbreyttan og skemmtilegan heim …
Harpa Stefánsdóttir veitir lesendum innsýn í fjölbreyttan og skemmtilegan heim grænmetisrétta á matarblogginu Eldhúsatlasinn. Hugmyndin kviknaði þegar Harpa kynntist fjölbreyttu grænmetisfæði á Indlandi. mbl.is/Styrmir Kári

Hugmyndin kviknaði þegar ég bjó í Chennai í Suður-Indlandi fyrir nokkrum árum. Þar kynntist ég grænmetisfæði í raun og veru, þetta var svo ótrúlega fjölbreytt og skemmtilegt þar sem grænmeti var alltaf aðalatriðið,“ segir Harpa Stefánsdóttir, sem hætti að borða kjöt þegar hún dvaldist á Indlandi og hélt því áfram þegar hún flutti aftur heim. „Mig langaði að miðla þessu áfram og upphaflega hugmyndin var að skrifa matreiðslubók.“

Harpa fylgdi eiginmanni sínum til Indlands þar sem hann stundaði nám og saman unnu þau meðal annars að rannsókn um afdrif barna sem lent hafa í barnaþrælkun. Nokkrum árum eftir að þau fluttu aftur heim til Íslands fór Harpa í nám í hagnýtri menningarmiðlun þar sem hana langaði í nám á sviði miðlunar, sem væri jafnframt fræðilegt.

Þegar Harpa þurfti að velja sér lokaverkefni reikaði hugurinn til Indlands og Eldhúsatlasinn, matreiðslubókin sem hafði mótast í huga hennar, varð að vefsíðu og meistaraverkefni sem hún skilaði síðastliðið haust og vefsíðan fór í loftið samtímis.

Markmið Eldhúsatlassins er að birta gænmetisrétti frá öllum 196 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna og er vefsíðan tilraun til þess að vekja áhuga og athygli á mikilvægi þess að minnka neyslu á kjöti og öðrum dýraafurðum í nafni dýravelferðar og umhverfisverndar.

„En það þarf ekki að vera leiðinlegt vegna þess að heimurinn er fullur af spennandi og fjölbreyttum grænmetisréttum. Þetta er miðlunarverkefni og snýst um það að nota matarbloggsformið til þess að sýna fram á hvað grænmetisfæði getur verið skemmtilegt. Mér finnst oft áberandi viðhorf að fólk spyrji hvort ég fái aldrei neitt gott að borða eða nógu spennandi vegna þess að ég er grænmetisæta. En það er alls ekki raunin og mig langaði að miðla því áfram og það hefur gengið svona líka vel,“ segir Harpa.

Viðbrögðin hafa verið afar góð og segist Harpa skynja áhuga fólks á málefninu. „Mér finnst það vera til marks um að þessi umræða er að verða meira áberandi, sérstaklega í sambandi við verksmiðjubúskap og umhverfisvernd.“

Kynntist matarbloggara frá Trínidad og Tóbagó

Fjölbreytni er svo sannarlega viðeigandi orð yfir uppskriftirnar sem finna má á Eldhúsatlasinum, en í upphafi ákvað Harpa að birta grænmetisrétti frá öllum 196 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna. „Ég ákvað einnig að taka lönd með sem eru í sjálfstæðisbaráttu og því verða uppskriftir frá Palestínu, Vestur-Sahara og Tíbet á síðunni, svo dæmi séu tekin,“ segir Harpa.

Nú hafa birst 30 uppskriftir frá 24 löndum svo það er nóg eftir, en Harpa hlakkar til að halda áfram með verkefnið. „Það er til svo mikið af áhugaverðum grænmetisréttum í heiminum og mér fannst það spennandi verkefni að takast á við að þurfa að leita og finna einn grænmetisrétt frá hverju landi. Leitin stendur enn yfir og það eru spennandi réttir í hverju landi en oft þarf ég að eyða miklum tíma í að leita,“ segir Harpa. Á þessu stafræna ferðalagi sínu um heiminn hefur hún einnig uppgötvað lönd sem hún vissi ekki að væru til, til dæmis eyjar í Karíbahafinu. Google Translate hefur einnig nýst Hörpu vel, sem uppgötvaði fljótlega að það þýðir ekki alltaf að leita bara á ensku.

„Stundum þarf að leita á frummálinu og þýða með aðstoð Google Translate. En það er ótrúlega gaman að grafa á netinu og finna þannig réttina. Ég bjó til dæmis til kryddmauk frá Trínidad og Tóbagó og vissi ekki alveg hvernig ég átti að nota það svo ég sendi póst á matarbloggara frá Trínidad og hún gaf mér leiðbeiningar.“ Harpa hefur einnig fengið ábendingar frá vinum og kunningjum sem hafa búið í hinum og þessum löndum.

Á bak við hverja uppskrift liggur mikil vinna, Harpa tekur allar myndir sjálf og nýtir frístundir sínar í matargerðina. Hún reiknar með að það muni taka um fimm ár að birta uppskriftir frá öllum löndunum, þó hún vilji ekki setja sér ákveðin tímamörk. „Það verður bara að koma í ljós, þetta hefur verið mjög gefandi og skemmtilegt ferli.“

Eldhúsatlasinn hefur fengið góð viðbrögð og var til að mynda tilnefndur til íslensku vefverðlaunanna í fyrra sem besti einstaklingsvefurinn og besti „non-profit“-vefurinn. „Það fannst mér æðislegt,“ segir Harpa, en ljóst er að hugmyndafræðin á bak við vefinn skiptir hana ekki síður máli en maturinn sjálfur og hún telur að það sé að verða mikil vitundarvakning um aðbúnað dýra í matvælaframleiðslu og umhverfisleg áhrif kjötneyslu.

„Umræða og meðvitund um illa meðferð á dýrum í verksmiðjubúskap og umhverfisleg áhrif kjötneyslu er alltaf að aukast og ég held að það sé meðal annars samfélagsmiðlunum að þakka. Við sem neytendur höfum vald og getum haft mikil áhrif. Til dæmis með því að velja meira grænmeti á kostnað dýraafurða, sniðganga afurðir sem framleiddar eru í verksmiðjubúskap og borga meira fyrir afurðir sem eru framleiddar með velferð dýra að leiðarljósi. Upplýsingar um umhverfisleg áhrif kjötneyslu eru líka mjög sjokkerandi. Sem dæmi má nefna að hinar ýmsu stofnanir Sameinuðu þjóðanna eru farnar að hvetja almenning til að minnka eða jafnvel hætta kjötneyslu af umhverfisástæðum,“ segir Harpa.

Hægt að hugsa í lausnum

Að hennar mati er auðvelt að hugsa í lausnum. „Þetta verkefni mitt snýst um okkur sem neytendur og það vald og ábyrgð sem við höfum með okkar vali. En ég held að hið opinbera þurfi líka að koma til sögunnar, til dæmis með því að gera neytendum auðveldara fyrir með að taka upplýstar ákvarðanir í matarvali, til dæmis með því að innleiða velferðarvottun á dýraafurðum, fyrir þá sem kjósa að kaupa dýraafurðir, þannig að slæm meðferð á dýrum í matvælaframleiðslu verði ekki hulin á bakvið luktar dyr.“

Harpa er því hvergi nærri hætt og heldur áfram að sinna Eldhúsatlasinum til að vekja fólk til meðvitundar um mikilvægi þess að minnka neyslu á kjöti og öðrum dýraafurðum í nafni dýravelferðar og umhverfisverndar. Það er svo aldrei að vita nema upprunalega hugmyndin verði að veruleika, það er að Eldhúsatlasinn komi út sem matreiðslubók. „Það verður bara að koma í ljós,“ segir Harpa.

Uppskriftir og myndir má nálgast á www.eldhusatlasinn.is
Á www.eldhusatlasinn.is má finna fjölda uppskrifta frá ýmsum heimshornum, meðal …
Á www.eldhusatlasinn.is má finna fjölda uppskrifta frá ýmsum heimshornum, meðal annars muhammara, sýrlenska ídýfu úr grilluðum paprikum. Ljósmynd/Harpa Stefánsdóttir
Bragðmilda súpa frá Þýskalandi, Gründonnerstagsuppe.
Bragðmilda súpa frá Þýskalandi, Gründonnerstagsuppe. Ljósmynd/Harpa Stefánsdóttir
Karabískt kryddmauk
Karabískt kryddmauk
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert