„Þetta er bara svo ósvífið“

Frá Húsavík.
Frá Húsavík. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Í gærmorgun var framið heldur óvenjulegt rán á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík. 

Inn í móttökuna kom askvaðandi maður úr rútu, sem rennt hafði í hlað skömmu áður, og kippti með sér poka fullum af bláum skóhlífum út úr byggingunni.

Starfsfólk í afgreiðslu rak upp stór augu og hélt í fyrstu að þarna væru að koma 18 til 20 manns á biðstofuna en viðkomandi gekk með pokann beinustu leið upp í rútuna sem svo var keyrð á brott.

Regína Sigurðardóttir hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík segir að um fyrirtækið Time Tours sé að ræða. Haft hafi verið samband við fyrirtækið strax en engin viðbrögð fengist.

„Þau gætu boðist til að borga okkur þetta,“ segir Regína. „Þrátt fyrir að okkur finnist þetta svolítið spaugilegt finnst okkur þetta mjög ósvífið.“

Regína segist þekkja til svipaðra mála hjá ferðaþjónustufyrirtækjum á svæðinu. Þótt þetta sé í fyrsta skipti sem stofnunin verður fyrir slíkum stuldi viti hún til þess að teknar hafi verið servíettur og aukaklósettpappír í nokkrum mæli. 

Vörurnar sem stolið er skipti kannski ekki miklu máli peningalega séð en þegar upp er staðið eigi enginn að komast upp með slíkt athæfi.

 Frétt mbl.is: „Ég hló nú bara að þessu“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert