Verður vonandi vísir að hugarfarsbreytingu

Alls verða sautján eftirlitsmyndavélar settar upp í Herjólfsdal og á …
Alls verða sautján eftirlitsmyndavélar settar upp í Herjólfsdal og á svæðinu í kring vegna Þjóðhátíðar

Alls verða sautján eftirlitsmyndavélar settar upp í Herjólfsdal og á svæðinu í kring vegna Þjóðhátíðar sem hefst á föstudaginn. Þær voru áður tólf en í ár verður fimm til viðbótar bætt við.

Þjóðhátíðarnefnd mun í ár leggja sérstaka áherslu á forvarnir gegn öllu ofbeldi og á föstudagskvöldið klukkan 22:15 verða hljómsveitir, gestir og gæsla með sameiginlega athöfn til að sýna með táknrænum hætti að ofbeldi á Þjóðhátíð verði ekki liðið. „Þessi athöfn og starfshópur sem skipaður mun verða í kjölfar hátíðarinnar verður vonandi vísir að hugarfarsbreytingu gagnvart kynferðisofbeldi og öðru ofbeldi,“ segir í tilkynningu frá þjóðhátíðarnefnd.

Þar segir jafnframt að innan gæslusveitar hátíðarinnar starfi um tuttugu menntaðir lögreglu- og sjúkraflutningamenn. Þegar álagið er hvað mest á svæðinu eru um 100 manns í gæslu. Í um 200 metra fjarlægð frá brekkusviði er sjúkraskýli þar sem læknisþjónusta er veitt frá 20 til átta alla hátíðardagana, þar starfar læknir og þrír hjúkrunarfræðingar. Á svæðinu eru tveir sjúkrabílar til reiðu frá klukkan 20 til átta alla dagana og einnig er starfandi áfallateymi í Herjólfsdal.

Teymið starfar á vegum þjóðhátíðarnefndar og er því stýrt af fagmenntuðu starfsfólki.

Þá verður forvarnarhópurinn Bleiki fíllinn, sem stofnaður var árið 2012, einkar áberandi á hátíðinni í ár. Sá hópur hefur það að markmiði að fræða þjóðhátíðargesti um samþykkt kynlíf. Átakið hefur verið mjög sýnilegt á hátíðarsvæðinu frá stofnun og hafa til að mynda margar hljómsveitir og listamenn komið fram merkt átakinu í dalnum. Þjóðhátíðarnefnd hefur jafnframt sett upp vegvísi inni á svæðinu sem sýnir hvar hægt er að leita sér aðstoðar ef eitthvað kemur upp á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert