Yfir 20 stig á átta veðurathugunarstöðvum

Veðurspáin klukkan 18 í dag.
Veðurspáin klukkan 18 í dag. Mynd/Veðurvefur mbl.is

18,9 stiga hiti mældist í Reykjavík í gær. Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að líklegast sé um heitasta dag ársins í Reykjavík að ræða, en það hefur ekki enn verið staðfest.

Sjá frétt mbl.is: Hitinn gæti orðið sá mesti í sumar

„Mesti hitinn mældist 18,9 stig í gær. Óstaðfest er það heitasti dagur sumarsins í Reykjavík,“ segir Elín Björk.

Hitametið í Reykjavík var slegið 30. júlí 2008 þegar hitinn mældist 25,7 stig.

Mesti hitinn í gær mældist í Skaftafelli, eða 22,9 stig. Það kemur fram í pistli Trausta Jónssonar veðurfræðings. Þar mældist einnig lægsti lágmarkshiti sólarhringsins í byggð, eða 5,3 stig í gær.

20,9 stiga hiti mældist á Hellu og 20,3 stig á Kirkjubæjarklaustri.

Sjá veðurvef mbl.is

Hitinn náði 20 stigum eða meira á átta veðurathugunarstöðvum í gær. Í pistli sínum segir Trausti að hlýindi gærdagsins hafi mjakað júlímánuðinum ofar á hitasamanburðarlistum og er mánuðurinn nú í 11. til 15. sæti yfir hlýjustu mánuði síðustu 142ja ára í Reykjavík. Aðra sögu sé hins vegar að segja af Norðurlandi.

Elín Björk segir að mesti hitinn í sumar hafi mælst á Egilsstöðum eða rúmlega 24 stig. 

Varðandi framhaldið segir Elín Björk að svipuð veðurspá sé fyrir daginn í dag og var í gær. „Það er heldur meiri norðaustanátt á norðan- og vestanverðu landinu og raun um land allt. Úrkomu- og vætusamt er norðan- og austanlands.“

Útlit er svo fyrir áframhaldandi norðanátt um helgina og vætusamt á austurhelmingi landsins. Bjartviðri verður syðra en einhverjar síðdegisskúrir. Ekki er von á yfir 20 stiga hita á landinu um helgina heldur verður hitinn á bilinu 10–16 stig.

Spurð hvað útskýri blíðviðrið á suðvesturhorninu síðustu daga segir Elín Björk: „Það er hlýtt loft yfir landinu og svo létti til og sólin náði að skína. Það hefur verið milt veður undanfarið og hlýr loftmassi. Svo létti til í gær og hafgolan náði sér ekki á strik. Þegar þetta gengur allt saman, þá hlýnar í veðri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert