10 km hlaupið var ekki 10 km

/Adidas Boost hlaupið

Adidas Boost-hlaupið fór fram í Elliðaár- og Fossvogsdal í gærkvöld en þetta var í annað sinn sem hlaupið er haldið. 270 keppendur voru skráðir til leiks og lögðu af stað í hlaupið sem átti að vera 10 kílómetra langt. Þegar fyrstu keppendur komu í mark reyndist leiðin ekki hafa verið 10 kílómetrar heldur aðeins 8,7.

„Það urðu smámistök,“ segir Kristófer Þorgrímsson, starfsmaður Adidas, í samtali við mbl.is. „Það átti semsagt að vera svona snúningspunktur inni í Fossvogsdalnum, það var búið að hjóla hann á undan og merkja,“ en þeir sem sáu um að setja upp drykkjarstöðina þar sem snúningspunkturinn átti að vera höfðu ekki farið nógu langt og lögðu of seint af stað.

„Þannig að fyrstu menn voru að koma framhjá þeim þegar þeir voru ennþá að setja drykkjarstöðina upp og ekki komnir á leiðarenda,“ segir Kristófer, en þar sem fyrstu menn voru þegar komnir framhjá var stöðin ekki færð á réttan stað svo allir hlypu sömu vegalengd.

Einhverjir voru skiljanlega svekktir, einkum þeir sem voru að fylgjast með tímanum sínum og töldu sig vera að bæta árangur sinn. „En ég held að allir hafi fyrirgefið þessi mistök.“

Hlaupið verður ekki endurtekið en verður haldið aftur að ári. Fyrstur í mark var Sigurður Örn Ragnarsson sem kom í mark á tímanum 30:08. Veitt voru verðlaun fyrir efstu þrjú sætin í hlaupinu 8,7 km langa og sæti eftir aldursflokkum.

Nákvæm úrslit hlaupsins er að finna á urslit.com.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert