Ætlar að synda hringinn næst

Jón Eggert Guðmundsson lauk í gær hringferð sinni um landið, en hann hjólaði um alla strandvegi Íslands, um 3.200 kílómetra.

Segir Jón ferðina hafa gengið vel og veður hafi verið gott fyrir utan fyrsta hluta ferðarinnar. „Það var norðanátt og stífur mótvindur, ég nánast lenti í snjókomu á Vestfjörðum. En það lagaðist þegar ég var að fara niður Hrútafjörð fram hjá Borðeyri, þá kom sólin.“ Veðrið hafi síðan haldist gott það sem eftir lifði leiðar. „Alveg frábært.“

Spurður hvaða hluti leiðarinnar hafi reynst erfiðastur, nefnir Jón Vestfirðina. „Þar er mesta hækkunin. Mikið af fjöllum, stórum fjöllum, það tók í.“

Hélt rifbeinsbrotinn af stað

Skömmu fyrir brottför lenti Jón í umferðarslysi og hlaut marbletti víða, auk þess sem hann rifbeinsbrotnaði. „Ég fór í „bike fit“ hjá Kríu með tilliti til þess að þegar ég væri á hjólinu myndi ég ekki espa upp brotið. Þá reyndi eins lítið á brotið og hægt var og það virkaði. Þetta lagaðist á svona 10 dögum, þá var þetta bara búið.“ Hins vegar tóku hnjámeiðsli að hrjá hann undir lok leiðarinnar. „Þá fór vinstra hnéð svona eiginlega að segja mé að hætta þessu“, segir Jón sem lauk samt sem áður við hringinn.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Jón ferðast hringinn, því fyrir 10 árum gekk hann sömu leið. „Þetta er öðruvísi og varla sambærilegt. Það sem er öðruvísi við þetta er að þegar ég labbaði fór ég 25 kílómetra á dag en í þessu fór ég 125.

Þegar ég gekk höfðu krabbameinsfélögin, eins og á Akureyri og Ísafirði, tíma til að hugsa sig um þegar ég var að nálgast þeirra svæði, því það tók mig kannski viku að nálgast þá, en á hjólinu er ég fimm sinnum hraðari og strax og þau fatta að ég er á leiðinni þá er ég farinn framhjá. Það var slatti af félögum sem ætluðu að gera eitthvað en ég var farinn framhjá áður en þau náðu í mig“, segir Jón, en áheitasöfnun fyrir Krabbameinsfélagið hefur fylgt báðum förum hans.

„Fólk getur styrkt áfram. Ég var líka með áheit fyrir gönguna og þá kom mest inn eftir hana, eftir að ég kláraði. Það gæti verið með hjólið líka.“

Ekkert annað eftir en að synda

Nú þegar Jón er búinn að ganga og hjóla þennan langa hringveg, liggur beinast við að spyrja hvað sé næst og þá stendur ekki á svarinu: „Synda þetta“, segir Jón og hlær. „Það er ekkert annað eftir. Það tekur sex sumur“, bætir hann við og segist vera full alvara með þessu. „Það hefur kona synt yfir Breiðafjörð og Benedikt Lafleur hefur synt þvert yfir firðina á Vestfjörðum, svo það er hægt að gera þetta á þennan hátt, taka landið í bútum. Það er best að gera þetta þannig.

Jón segist vel syndur, enda hafi hann keppt í sundi sem krakki. „Suðurlandið og Faxaflói, ég mundi hafa það sem rest því það er erfiðast. Hitt ætti að vera nokkurn veginn í lagi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert