Nær allir brúðkaupsgestir fengu matareitrun

Brúðkaupsdagurinn var að öðru leyti yndislegur í alla staði.
Brúðkaupsdagurinn var að öðru leyti yndislegur í alla staði. Mynd/Facebook

Alla jafna eru brúðkaupsdagar virkilega hamingjuríkir og skemmtilegir en ekki gengur þó alltaf allt að óskum. Þau Sigurbjörg Dís Konráðsdóttir og Jón Haukur Ólafsson gengu í það heilaga um helgina og var dagurinn að þeirra sögn yndislegur í alla staði að því frátöldu að veisluþjónustan var til háborinnar skammar. 

„Það er bara búið að finna tvo sem að veiktust ekki af 60 manns,“ segir Sigurbjörg í samtali við mbl.is. „Amma mannsins míns varð veikust, hún varð fyrst veik og var borin út tæplega klukkutíma eftir matinn. Henni var bara komið strax heim,“ segir Sigurbjörg en veikindin lýstu sér sem allt frá ónotum í maga upp í tveggja daga niðurgang og uppköst.

Brúðhjónin borðuð lítið um kvöldið enda í spennufalli eftir daginn en seinna um kvöldið gæddi brúðurin sér á afgöngum og varð í kjölfarið einnig veik. 

Sigurbjörg hefur talað við veisluþjónustuna og lýst yfir óánægju sinni en segir eiganda veisluþjónustunnar hafa mætt þeim af miklum hroka. „Hann kennir fylleríi um og við buðum ekki einu sinni upp á áfengi með matnum,“ segir Sigurbjörg, en meðal þeirra sem veiktust var fólk sem ekki drekkur áfengi.

Lágmark að biðjast afsökunar

Eigandi veisluþjónustunnar hafði svo samband aftur og sagði það vera smáréttina sem hafi valdið þessu, „en við vorum ekki með neina smárétti,“ segir Sigurbjörg, „þannig að hann er bara að búa til.“

Hún hafði lesið sig til á netinu um veisluþjónustuna fyrir brúðkaupsdaginn og sá þá ekkert nema fín ummæli.

Sigurbjörg hefur leitað ráða hjá Neytendastofu sem ráðlagði henni að senda veisluþjónustunni póst sem ekki hefur ennþá verið brugðist við. Neytendastofa fékk einnig tölvupóstinn.

„Það lagar þetta ekkert, þetta er brúðkaupsdagurinn okkar,“ segir Sigurbjörg, „en að byðjast afsöknar finnst mér bara algjört lágmark.“

Minnir á atriði úr Christmas Vecation

Sigurbjörg greindi frá málinu í færslu sem hún birti á Facebook í gær. Á matseðlinum var sjávarrétta súpa með brauði, heill kalkúnn, lambalæri og hamborgarahryggur ásamt bökuðum kartöflum og meðlæti, „alveg dýrindis matseðill enda allir spenntir að borða,“ segir í færslu Sigurbjargar.

„Súpan var köld þó hún hafi bragðast ágætlega. Svo var í boði þessi kalkúnn og hann var svo skorpinn að það minnti helst á atriði úr christmas vecation myndinni. Lambalærin voru hvergi að sjá en í boði voru of eldaðir lambabógar/frampartar sem sem voru álíka þurrir og kalkúnninn,“ segir jafnframt í færslunni en hana má sjá í heild sinni hér að neðan.

Sakar brúðhjónin um fjárkúganir 

Magnús Ingi Magnússon, eigandi veisluþjónustunnar, segir í samtali við DV að hann sjái ekki ástæðu til þess að bregðast við ósk hjónanna. „Þau báðu um að fá þetta endurgreitt. Þetta eru bara fjárkúganir. Og ef ég hlýddi ekki þessu þá myndu þau gera allt vitlaust og brjálað, eins og þau eru búin að gera,“ hefur DV eftir Magnúsi.

Hann segir jafnframt að í veislunni hafi ekki eingöngu verið matur frá honum heldur hafi umræddir smáréttir komið frá annarri veisluþjónustu. Brúðurin aftur á móti segir einu veitingarnar sem ekki komu frá veisluþjónustu Magnúsar, hafa verið freyðivín við komu gesta í veisluna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert