Fólk beðið að gefa ekki öndunum

Brákin, sem endar sem skán ofan á vatninu, er til …
Brákin, sem endar sem skán ofan á vatninu, er til komin vegna ofauðgunar.

Óvenjuleg og litskrúðug brák hefur sést á nokkrum stöðum á Tjörninni undanfarna daga. Brákin myndast vegna þess að ákveðnir blágrænir þörungar eða gerlar fjölga sér of hratt og enda sem skán ofan á vatninu. Reykjavíkurborg biður fólk að gefa öndunum ekki brauð á meðan brákin er á vatninu.

Um er að ræða ofauðgun sem er til komin vegna of mikilla næringarefna í Tjörninni, að því er segir í fréttatilkynningu frá borginni. Ástandið er þekkt í stöðuvötnum á sumrin, en ekki ákjósanlegt. Auknar líkur eru á ofauðgun þegar hitastig vatnsins hækkar á sólríkum dögum, eins og um þessar mundir og eins þegar vatnsblöndun er lítil vegna hægs rennslis.

Brákin er hvað mest við austur- og norðurenda Norðurtjarnar þar sem minnst hreyfing er á vatninu og mikið er um fugla og brauðgjöf.  Brákin er mjög áberandi og fremur ógeðfelld og af henni getur verið sterk lykt. Hún er þó ekki talin hættuleg, en fólki er ráðlagt að vera ekki að snerta hana að óþörfu.

Reykjavíkurborg ítrekar að fólk er beðið um að gefa ekki öndunum brauð, á meðan á þessu stendur. Almennt er mælst til þess að brauðgjöf sé hætt yfir sumartímann, þar sem hún laðar að máva á sama tíma og næg fæða er fyrir endur og unga í Tjörninni. Nú sé hins vegar sérstaklega mikilvægt að brauðgjöf sé hætt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert