„Hef heyrt að Erpur mæti með 50 manna lið“

Frá Mýrarboltanum á Ísafirði árið 2013.
Frá Mýrarboltanum á Ísafirði árið 2013. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Það er glampandi sól á Ísafirði og gott veður. Við erum byrjuð að vökva vellina og allt lítur vel út,“ segir Thelma Rut Jóhannsdóttir, drullusokkur og skipuleggjandi Mýrarboltamótsins sem fer fram á Ísafirði um verslunarmannahelgina.

Faðir Thelmu Rutar hefur verið skipuleggjandi mótsins í mörg ár en í ár tekur Thelma við keflinu. „Ég fæddist eiginlega drullusokkur. Pabbi minn hefur séð um þetta síðustu 13 árin. Ég hef alltaf verið litla barnið í drullunni, að grjóthreinsa vellina og svoleiðis. Nú er ég að stíga upp og sé um mótið í þetta skiptið,“ segir Thelma.

Skráning á mótið er í fullum gangi. Sem komið er hafa um 30 lið skráð sig að sögn Thelmu. „Skráningin er svipuð og í fyrra, við erum ánægð með það. Ég geri ráð fyrir á milli 30 og 40 liðum. Það eru komin um 30 og ég býst við nokkrum skráningum í viðbót. Það koma alltaf einhverjir á síðustu stundu,“ segir Thelma.

Mæta aftur með stærri hópa

Aðspurð hversu margir keppendur verði á Ísafirði um helgina segir Thelma: „Það er erfitt að segja. Við höfum heyrt að Erpur Eyvindarson sé að koma með 50 manna lið. Það er mjög misjafnt hversu margir keppendur eru í hverju liði. Þeir sem hafa keppt í þessu áður koma yfirleitt aftur með stærri lið.“

„Skráningin er enn í gangi inni á Tix.is og henni lýkur á morgun. Við erum orðin ótrúlega spennt,“ bætir Thelma við.

Smá peysutog í Mýrarboltanum.
Smá peysutog í Mýrarboltanum. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Thelma segir að á mótinu sé blanda af gömlum og nýju andlitum. „Það eru alltaf einhver sömu lið sem koma aftur og aftur. En það eru líka fullt af nýjum liðum. Ég myndi segja að þetta væri blandað.“

„Sniðið á þessu verður mjög svipað og í fyrra en við komum aftur inn með brennu í verðlaunaafhendingunni í ár. Þar munu svo meðal annars Páll Óskar og Boogie Trouble koma fram. Það verður svakalegt stuð og ein stærsta brenna sem ég hef séð,“ segir Thelma og bendir á að stuðið á hátíðarkvöldunum verði að finna á tveimur skemmtistöðum í bænum. 

„Við erum með tvo skemmtistaði sem verða opnir um helgina. Húsið og Edinborg. Edinborg býður upp á sérstakt ball-armband þar sem þeir halda þrjú böll um helgina. Síðan verður frítt inn í húsið.“

Veðrið á Ísafirði er með besta móti í dag og á Thelma ekki von á að breyting verði þar á á næstu dögum. „Það er alltaf glampandi sól á Ísafirði,“ segir Thelma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert