Herjólfur fær að flytja fleiri farþega

Herjólfur við bryggju í Landeyjahöfn.
Herjólfur við bryggju í Landeyjahöfn. mbl.is/Styrmir Kári

Greint er frá því á vef Eyjafrétta í dag að innanríkisráðherra hafi undirritað breytingu á reglugerð sem felur í sér að Herjólfur má flytja fleiri farþega á siglingaleiðinni Vestmannaeyjar-Landeyjahöfn. Þetta staðfestir Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmanneyjum í samtali við mbl.is.

„Þetta er rétt, það er búið að undirrita reglugerðina en ég veit ekki hvort búið sé að birta hana í stjórnartíðindum,“ segir Elliði.

Reglugerðarbreytingin felur í sér að siglingasvæðið á milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar verður nú skilgreint sem hafsvæði C yfir sumartímann í stað núverandi skilgreiningar sem hafsvæði B. Þýðir þetta að minni kröfur eru gerðar og Herjólfur getur tekið fleiri. 

Herjólfur þegar með leyfi yfir þjóðhátíð

Herjólfur má því nú flytja 525 farþega í hverri ferð frá 1. maí til 30. september. Einnig mega önnur sjóför sem hafa heimild til farþegaflutninga á hafsvæði C taka upp siglingar á milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja.

„Þetta er eitthvað sem hefði átt að vera búið að gera fyrir lifandi löngu síðan. Það liggur fyrir að þetta er mjög ólíkt hafsvæði sumars og vetur. Yfir sumartímann er ölduhæðin samkvæmt því sem skilgreinist á hafsvæði C og því óþarfi að gera hafsvæðis B-kröfur.“

Elliði segir fyrstu áhrifin augljóslega vera að Herjólfur megi flytja fleiri farþega. „Það fjölgar um 500-600 farþega á dag sem skipið má flytja án aukins kostnaðar. Síðan kann að vera að auðveldara verði fyrir önnur skip með leyfi til farþegaflutninga á C-hafsvæði að þjónusta á siglingaleiðinni Landeyjahöfn-Vestmannaeyjar.“

Það lá beinast við að spyrja Elliða hvort þetta hafi áhrif á fólksflutninga á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum sem fer fram nú um verslunarmannahelgina:

„Ég hef ekki trú á því þar sem Herjólfur er nú þegar með aukið leyfi yfir hátíðina. Þetta hefur því ekki teljandi áhrif á þjóðhátíð núna,“ segir Elliði.

Sjá frétt Eyjafrétta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert