IKEA innkallar sex tegundir til viðbótar

Súkkulaðitegundirnar sex sem nú hafa verið innkallaðar.
Súkkulaðitegundirnar sex sem nú hafa verið innkallaðar.

IKEA hefur bætt sex súkkulaðitegundum við yfirstandandi innköllun, sem teljast ekki æskilegar þeim sem þjást af ofnæmi eða eru viðkvæmir fyrir heslihnetum og/eða möndlum.

Frétt mbl.is: IKEA innkallar dökkt súkkulaði

IKEA vekur athygli viðskiptavina, sem keypt hafa eina eða fleiri af þessum IKEA-súkkulaðitegundum, á að ekki sé æskilegt að einstaklingar sem þjást af ofnæmi eða eru viðkvæmir fyrir heslihnetum og/eða möndlum neyti þeirra.

Súkkulaðitegundirnar sem nú eru innkallaðar eru eftirfarandi: 

CHOKLAD LINGON & BLÅBÄR 180 g (súkkulaði með týtu-/bláberjabragði)

CHOKLAD LJUS UTZ 100 g (mjólkursúkkulaði)

CHOKLAD NÖT UTZ 100 g (mjólkursúkkulaði með heslihnetum)

GODIS CHOKLADKROKANT 450 g (mjólkursúkkulaði með karamellu)

GODIS CHOKLADRÅN 168 g (súkkulaði með kremkexfyllingu)

CHOKLADKROKANT BREDBAR 400 g (með súkkulaði- og karamellubragði).

Innköllunin nær til allra dagsetninga sem umbúðirnar eru stimplaðar með.

Í mörgum tilfellum hafa fundist heslihnetur og möndlur í vörunum, sem undirstrikar það að einstaklingar sem þjást af ofnæmi eða eru viðkvæmir fyrir þessum ofnæmisvöldum ættu ekki að neyta þeirra, segir í tilkynningu IKEA. 

Vöruupplýsingarnar gefa ekki nægilega skýra mynd af því hversu algengt er að ofnæmisvaldurinn finnist í vörunum, þar sem aðeins kemur fram „gæti innihaldið …“. Vöruupplýsingarnar gætu þar af leiðandi verið misvísandi og þess vegna ekki túlkaðar í samræmi við lög á einhverjum markaðssvæðum. Í samræmi við gæða- og öryggiskröfur IKEA var því ákveðið að kalla inn vörur á heimsvísu sem þetta á við um, burtséð frá mismunandi löggjöf á markaðsvæðum IKEA.  

Vörurnar eru öruggar þeim sem ekki þjást af ofnæmi eða eru viðkvæmir fyrir möndlum og/eða heslihnetum. IKEA hefur ekki borist tilkynning um atvik í tengslum við vörurnar sex sem bættust við yfirstandandi innköllun á súkkulaði.

Viðskiptavinum er velkomið að skila þeim vörum sem hér um ræðir í versluninni og fá þær endurgreiddar að fullu.

Nánari upplýsingar eru veittar í þjónustuveri í síma 520-2500 og á www.IKEA.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert