Krefjast áhættumats á sjókvíaeldi

mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Landssamband veiðifélaga gerir alvarlegar athugasemdir við áform fyrirtækisins Laxar Fiskeldi um 9.000 tonna sjókvíaeldi  á norskættuðum laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði.  Sambandið krefst þess að áhættumat fari fram og gagnrýnir að engin stefna hafi verið mörkuð um framtíð sjókvíaeldis á Íslandi.

Í fréttatilkynningu sem Landssamband veiðifélaga hefur sent frá sér kemur fram að þess hafi verið krafist að Skipulagsstofnum láti fara fram áhættumat á því mikla laxeldi sem áformað sé á næstu árum.  „Engin stefna hefur verið mörkuð um framtíð sjókvíaeldis á Íslandi og nú keppast fyrirtækin við að komast yfir ókeypis eldisleyfi,“ segir í tilkynningunni.

Þetta sé að mati Landssambandsins lýsandi fyrir þá óreiðu og skipulagsleysi sem ríki „við ókeypis úthlutun á takmarkaðri auðlind sem eru eldissvæðin við strendur landsins. Hér sækist því hver um annan þveran eftir að afla ókeypis eldisleyfa og selja síðan fyrirtækin, eða hluta í þeim og stinga svo gróðanum í vasann.“

Vekur Landssamband veiðifélaga athygli á því að í Noregi greiða eldisfyrirtækin fyrir eldisleyfin. 

Matsáætlun Laxar Fiskeldi sé aukinheldur ekki í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu í nýjum lögum um náttúruvernd, þar sem engar rannsóknir eða upplýsingar liggi fyrir um heildarálag sjókvíaeldis á laxastofna í ám landsins eða sammögnunaráhrif áforma fyrirtækisins við önnur fiskeldisáform á svæðinu. 

„Telur Landssambandið að vegna hættunnar á erfðamengun villtra laxastofna í gjöfulum ám á Austurlandi sé skylt að lögum að meta allt Austurland sem áhrifasvæði vegna stórfelldra laxeldisáforma þar,“ segir í tilkynningunni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert