Ódýrt eldsneyti fyrir stærstu ferðahelgina

mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Öll helstu olíufélög landsins bjóða góðan afslátt af eldsneytislítranum í dag, fimmtudaginn fyrir verslunarmannahelgi. Það eru Orkan og Skeljungur sem bjóða mestan afslátt í dag eða 21 krónu af lítranum. Þá bjóða Olís, ÓB og N1 og Atlantsolía 20 króna afslátt í dag.

Til að nýta sér afsláttinn þarf að vera handhafi korts eða dælulykils viðkomandi fyrirtækis.

ÓB hafði áður efnt til leiks þar sem stefnan var að bjóða 20 króna afslátt ef 20 þúsund manns myndu líka við færslu þeirra á Facebook. Það tókst ekki en bjóða ÓB og Olís samt upp á afsláttinn. Í kjölfarið buðu hin félögin einnig afslátt.

„Þetta er bara liður í því að þakka viðskiptavinum fyrir gott samstarf,“ segir Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, í samtali við mbl.is. Hann segir fyrirtækið vilja með þessu sýna viðskiptavinum þakklæti fyrir góðar undirtektir en ákveðið var að halda afslættinum til streitu þar sem viðtökin við leiknum voru góð.

„Þetta er náttúrlega bara spurning hvernig á það er litið,“ segir Jón Ólafur, spurður um hvort ekki sé nær að hreinlega lækka eldsneytisverð fyrst svigrúm sé til að veita svo góðan afslátt. „Almennt séð er ekki þetta svigrúm fyrir hendi þó við gerum þetta einstaka sinnum.“

Uppfært kl. 16:25

Atlantsolía veitir 20 króna afslátt í dag en ekki 23 kr. líkt og fullyrt var upprunalega í fréttinni. Það hefur nú verið leiðrétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert