Pílagrímsferð á slóðir Fórnarinnar

Mæðgurnar Guðrún S. Gísladóttir og Vera Illugadóttir eru með hlutverk …
Mæðgurnar Guðrún S. Gísladóttir og Vera Illugadóttir eru með hlutverk í mynd um Fórnina sem Guðrún lék í forðum daga, sem tekin var upp á Gotlandi í sumar og frumsýnd verður í næsta mánuði. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Rússneski kvikmyndaleikstjórinn Andrei Tarkovsky er af mörgum talinn einn af stórmeisturum kvikmyndasögunnar fyrr og síðar. Fyrsta kvikmyndahlutverk Guðrúnar S. Gísladóttur var í hans síðustu mynd, Fórninni, sem tekin var upp á Gotlandi sumarið 1985.

Tarkovsky lést sama ár og myndin var frumsýnd í Cannes. Í sumar hvarf leikkonan rúm þrjátíu ár aftur í tímann þegar hún fór um sögusviðið ásamt Veru dóttur sinni, en þær hafa báðar hlutverk í mynd um myndina.

Sumarið 1985 er eitt það eftirminnilegasta í lífi Guðrúnar S. Gísladóttur leikkonu. Þá dvaldi hún, ásamt þriggja ára syni sínum, á eyjunni Gotlandi í Eystrasalti, tíndi blóm, borðaði ís, baðaði sig í sjónum og byggði sandkastala á ströndinni við litla þorpið Ljugarn þar sem þau mæðginin bjuggu. Og svo skrapp hún annað veifið til að skoða sig um í höfuðstaðnum Visby og víðar. Ljúft líf. Bjart og fagurt.

Mestanpart var Guðrún þó við störf á Närsholmen-tanganum á suð-austurhluta eyjunnar þar sem Fórnin, síðasta kvikmynd rússneska leikstjórans Andrei Tarkovsky, var aðallega tekin upp. Guðrún lék eitt aðalhlutverkið, Maríu, íslenska vinnukonu og völvu. Fórnin hverfist um kjarnorkuvá og tilvistarkreppu. Margslungið líf. Myrkt og drungalegt. „Sjálfsfórn að kristnum skilningi og gagnrýni á efnishyggju nútímans,“ eins og leikstjórinn mun m.a. hafa komist að orði.

Flestir dánir

„Pílagrímsferð, já, það má kannski segja það, svona hálft í hvoru að minnsta kosti,“ svarar Guðrún spurð um erindi hennar og dóttur hennar, Veru Illugadóttur, frétta- og dagskrárgerðarmanns hjá RÚV, en til þeirra spurðist á Gotlandi núna um miðjan mánuðinn. „Í ár eru þrjátíu ár síðan Fórnin var frumsýnd og Tarkovsky lést. Af því tilefni hafði sænska sjónlistakonan Ingela Johansson samband við mig, en hún er að gera litla mynd um Tarkovsky, vinnu hans og pælingar í tengslum við myndina. Margir sem komu að gerð Fórnarinnar, þar á meðal allir aðalleikararnir nema ég og gamall maður í Gautaborg, eru látnir, svo það var ekki seinna vænna. Meiningin var að sýna myndina á hinni árlegu Bergmans-viku í Fårö, sem að þessu sinni var tileinkuð Tarkovsky, en við náðum því ekki, svo hún verður frumsýnd í ágúst,“ segir Guðrún og bætir við að hún hafi einu sinni áður komið til Gotlands eftir að tökum Fórnarinnar lauk.

„Tíu árum síðar lék ég þar í stuttmynd, Memento, sem júgóslavnesk kona, búsett í Svíþjóð, gerði um stríðið í Bosníu. Hún er líka dáin. Mig hefur alltaf langað að fara aftur til Gotlands, sem er yndislegur staður, og sérstaklega fallegur á þessum árstíma. Ingela þurfti því ekki að beita mig fortölum til að koma og ganga með henni og myndatökumanni um sögusvið Fórnarinnar, svara spurningum, spjalla um myndina og rifja upp minningar henni tengdar.

Hún vildi að ég væri líka þulur, en þar sem ég er ekkert sérstaklega góð í sænsku, varð úr að Vera tæki hlutverkið að sér og kæmi sem slíkur fram í myndinni. Hún er hrifin af Tarkovsky og verkum hans sem og Rússum,“ segir Guðrún brosandi og hefur þar með gert nokkra grein fyrir ferðum þeirra mæðgna.

Forspár leikstjóri

Í myndinni um myndina leggur Ingela áherslu á yfirvofandi stríðshættu; kjarnorkuvána, sem Fórnin fjallar um. „Tarkovsky er merkilega forspár því í Fórninni eru óræðar skírskotanir um atburði sem síðar urðu, til dæmis kjarnorkuslysið í Tsjernobyl 1986 og morðið á Olof Palme, forsætisráðherra Svíþjóðar, sama ár. Mynd Ingelu byggir á dagbókarfærslum Tarkovsky og tiltækum heimildum, en af nógu er að taka því um tilurð myndarinnar og efni hennar hafa verið skrifaðar margar bækur og hún túlkuð með margvíslegum hætti. Til dæmis gerði túlkur Tarkovsky fína bók með fjölda ljósmynda nokkru eftir að myndin var frumsýnd.“

Guðrún segir að líklega hafi Tarkovsky verið orðinn veikur af krabbameini þegar tökur stóðu yfir á Gotlandi. „Við gerðum okkur öll grein fyrir að honum leið illa. Hann klippti myndina á dánarbeði en bar ekki gæfu til að vera viðstaddur frumsýninguna í Cannes því hann lést í árslok 1986.“

Hér heima þótti nokkrum tíðindum sæta að ung leikkona, sem aldrei hafði leikið í kvikmynd fengi aðalhlutverk í mynd eins helsta meistara kvikmyndasögunnar. „Þegar til kastanna kom höfðu kvikmyndahúsin þó engan áhuga á að taka hana til sýninga,“ upplýsir Guðrún, sem sjálf hafði forgöngu um að hún var sýnd í Tónabíói í október 1986.

„Tarkovsky hafði verið í sjálfskipaðri útlegð í Evrópu, en hann og kona hans ákváðu að snúa ekki aftur til Sovétríkjanna og börðust fyrir að fá ungan son sinn til Evrópu. Á þessum árum renndu margir hýru auga til Gorbatshev og því fannst mér tilvalið að sýna myndina á sama tíma og leiðtogafundur þeirra Reagans var haldinn í Reykjavík.“

„Eitthvað svona Tarkovsky“

Þrátt fyrir afbragðs dóma segir Guðrún hlutverk Maríu ekki hafa verið henni sérstaklega til framdráttar á leiklistarferlinum. Hvorki hafi henni boðist hlutverk svo orð sé á gerandi í erlendum bíómyndum, né hafi íslenskir leikstjórar verið sérstaklega uppveðraðir. „Þeir hafa jafnvel verið með hálfgerð ónot og sagt að tiltekið leikrit eigi sko ekki að vera „eitthvað svona Tarkovsky“. Svolítið svona viðhorf „þarna kemur hún, hvað þykist hún vera.““

Og hún getur ekki varist hlátri. Ekki hafa þó allir sýnt leik hennar í Fórninni slíkt fálæti í áranna rás. „Það er sama hvert leitað er og hverju framvindur, enginn Íslendingur hefur náð lengra í kvikmyndum en Guðrún S. Gísladóttir. [...] Guðrún lék stórt hlutverk í mynd eftir einn af hinum algjöru stórmeisturum kvikmyndanna fyrr og síðar. Manni sem á heima á öllum topp tíu listum yfir mestu kvikmyndaleikstjóra allra tíma, nei – á topp fimm listanum. Andrei Tarkovskí,“ skrifaði Egill Helgason á bloggi sínu, Silfri Egils, í ársbyrjun 2014 þegar Kvikmyndasafn Íslands sýndi Fórnina í Bæjarbíói.

Ævintýri og lífsreynsla

„Mér finnst ég hafa dottið í lukkupottinn að hafa fengið tækifæri til að vinna með þessum manni og kynnast öllu því góða fólki, sem að myndinni stóð, og bjó í sátt og samlyndi í Ljugarn. Við fengum marga frídaga því tökur helguðust af veðri, sól og skýjafari. Þetta var allt saman heilmikið ævintýri og lífsreynsla, sem hefur komið mér að góðum notum æ síðan. Ég hef oft hugleitt boðskapinn í þessari mynd, sem er gríðarlega margræð, en verð að viðurkenna að ég hef fengið meira krefjandi hlutverk, enda leikhúsið mun strangara listform að mínu mati,“ segir Guðrún, sem sagði einhverju sinni í viðtali að líklega hafi hún fengið hlutverk Maríu út á andlitið. Freknurnar, giskaði hún á.

„Vinur minn, Lárus Ýmir Óskarsson, leikstjóri í Svíþjóð, var beðinn um að senda myndir af íslenskum leikkonum til Tarkovsky, sem síðan valdi mig af einhverjum ástæðum úr bunkanum. Ég var enginn sérfræðingur í Tarkovsky en hafði séð Andrei Rublev og Stalker, sem höfðu mikil áhrif á mig og ég get enn þá horft á aftur og aftur. Fórnina hef ég ekki horft á nema svona þrisvar, en þarf að fara að gera bragarbót þar á.“

Guðrún þvertekur fyrir að ástæðan sé sú að Fórnin sé einfaldlega leiðinleg og einungis fyrir þröngan hóp kvikmyndaáhugamanna. „Hún er náttúrulega drungaleg, tónuð niður í litum og afar hæg, en Tarkovsky sagði sjálfur að sér væri alveg sama þótt fólk sofnaði yfir henni. Þótt hún María mín sé af hinu góða og bjargi heiminum, hvorki meira né minna, er hún döpur og til baka eins og sagt er,“ segir Guðrún.

Fornminjar og friðland fugla

Talið berst aftur að Gotlandi og dvöl hennar þar fyrr og nú. „Fórnin er stundum ranglega sögð tekin á Fårö, þar sem Ingmar Bergman bjó, en sannleikurinn er sá að Tarkovsky var synjað um leyfi til myndatöku því herinn var þar með bækistöðvar. Eftir töluvert stapp fékk hann leyfi fyrir tökum á Närsholmen, sem er mýrarfláki og friðland fugla. Hinum megin við sundið var svo Bergman, sem sagður var njósna um okkur, en þeir Tarkovsky höfðu sem leikstjórar miklar mætur hvor á öðrum. Við Vera bjuggum í Visby, sem á árunum áður var mikil verslunarborg og ein lykilborg Hansasambandsins. Við fórum um helstu söguslóðir Fórnarinnar í fylgd Ingelu og aukinheldur til Fårö, en þangað hafði ég ekki komið áður. Töluvert hafði breyst á þessum þrjátíu árum. Gotland er mikil sumarleyfisparadís þar sem ríkir Svíar eiga sumarhús og unga fólkið frá Stokkhólmi kemur gjarnan á skútum foreldra sinna og djammar í höfninni. Öðru megin á eyjunni er stundaður fjárbúskapur og þar hafa fundist miklar fornminjar. Hermt er að bændur megi ekki stinga niður skóflu án þess að rekast á víkingagrafir og verðmæti. Hinum megin eru miklar kalksteinsnámur og þar er „bláa lón“ þeirra Gotlendinga, sem við böðuðum okkur í,“ upplýsir Guðrún, sem vel gæti hugsað sér að dvelja aftur sumarlangt á eyjunni – ef hún væri ekki þannig gerð að vilja alltaf vera heima á Íslandi á sumrin.

Þótt hlutverk í Tarkovsky-mynd fyrir þrjátíu árum hafi ekki leitt til fjölda atvinnutilboða í útlöndum, muna margir eftir Maríu hans Tarkovsky. Líka aðstandendur hinnar árlegu Tarkovsky-kvikmyndahátíðar í Rússlandi, sem fyrir nokkrum árum buðu Guðrúnu að vera dómari á hátíðinni. „Ég mátti taka með mér gest og bauð Veru með mér. Við erum svo hrifnar af Rússum...“ segir Guðrún.

Mæðgur í bláa lóninu á Gotlandi.
Mæðgur í bláa lóninu á Gotlandi.
Vera spókar sig í Visby, höfuðstað Gotlands.
Vera spókar sig í Visby, höfuðstað Gotlands.
Guðrún við dranga á eyjunni Fårö.
Guðrún við dranga á eyjunni Fårö.
Beðið eftir töku. Guðrún uppábúin sem María. Tarkovsky í baksýn.
Beðið eftir töku. Guðrún uppábúin sem María. Tarkovsky í baksýn.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert