„Réttast væri að nauðga þér“

Frá Þjóðhátíð.
Frá Þjóðhátíð.

Útvarpskonan Margrét Erla Maack komst í kastljós fjölmiðla í síðustu viku eftir að hafa minnt fólk „á að nauðga bara heima hjá sér í Vest­manna­eyj­um,“ í beinni útsendingu í Morgunútvarpinu á Rás 2. Í kjölfarið fékk hún fern skilaboð með nauðgunarhótunum. 

Frétt mbl.is: Einfaldlega nóg boðið

Ummæli Margrétar voru sett fram í kaldhæðni og sem vísun í viðbrögð lögreglustjórans Páleyjar Borgþórdóttur við fyrirspurnum fjölmiðla um upplýsingagjöf yfir þjóðhátíð. Margrét baðst afsökunar á ummælum sínum samdægurs en fékk þó sterk viðbrögð úr ýmsum áttum sem hún segir frá í Kjaftæði Kjarnans í dag.

„Átt­undu við­brögð voru hin klass­ísku ÞAÐ ÞYRFTI NÚ BARA AÐ NAUÐGA ÞÉR. Ég fékk sam­tals fern svo­leiðis skila­boð tvö á feis­ar­anum og tvo tölvu­pósta,“ skrifar Margrét.

Margrét Erla Maack.
Margrét Erla Maack.

Hún birtir ein skilaboðana, sem hún segir í uppáhaldi þar sem þau „kjarni þetta allt svo fallega“ auk þess sem þau hafi verið þau einu sem voru rétt skrifuð en í þeim stóð: „Réttast væri að nauðga þér 101 píkan þín.“

„Kæri vin­ur, það er bara búið að því, fyrir 15 árum síð­an, og ekki hjálpar það mér til að halda kjafti í dag. Þess ber að geta að ég og nauð­gar­inn minn höfum farið yfir þetta mál og talað út um það. Hann hefur beðist afsök­unar og axlað ábyrgð,“ skrifar Margrét.

Hún segir þá sem sendu skilaboðin vera sjálfum sér til skammar og hafi eyðilagt fyrir öllum þeim Vestmannaeyingum sem hún muni „matcha“ við á stefnumótaforritinu Tinder í framtíðinni. Þá bætir hún því við að þeir sem ætli sér að senda konum út í bæ nauðgunarhótanir ættu að taka bleika fílinn, tákn baráttuhóps þjóðhátíðar gegn kynferðisofbeldi, sem prófílmynd.

„Djamm- og djús­há­tíðir snú­ast um þrennt: Drekka, dópa og ríða. Mér finnst allt þetta bara mjög spenn­andi. Hins vegar er hræði­legt fyrir PR-ið ef neð­an­belt­is­gamanið kárn­ar. Þess vegna skynja ég svo afar heitt að ákvörðun um að geyma upp­lýs­ingar um kyn­ferð­is­brot sner­ist ekki um að vernda fórn­ar­lömb, heldur að bíða eftir að fallið yrði frá kærum – og því hægt að segja frá færri brotum en voru fyrst til­kynnt. Það væri nefni­lega svo baga­legt að sjá nafn hátíð­ar­innar og orðið „nauðg­un“ í sömu setn­ingu,“ skrifar Margrét.

„Málið snýst þó ekki ein­göngu um Vest­manna­eyjar og við­brögðin þar. Versl­un­ar­manna­helgin og nauðg­anir eru fyrir löngu komin í sama hugs­ana­klasa í höfð­inu á mér. Þetta snýst um að það sé orðið sjálf­sagt að kyn­ferð­is­brot eigi sér stað þegar fólk komi saman til að skemmta sér og að enn finn­ist okkur of vand­ræða­legt að ræða þetta mál til að geta komið í veg fyrir brot­in, hvað þá hugað almenni­lega að þolend­um.  

Ég vona inni­lega að ég hafi rangt fyrir mér og eng­inn nauðgi um helg­ina, hvorki í Vest­manna­eyjum né ann­ars stað­ar. Og ef þér, kæri les­andi, verður nauðgað þá skemmir þú ekki partýið með því að til­kynna glæp­inn.“

Á Kjarnanum má lesa pistil Margrétar í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert