Stærsti vinningur Íslandssögunnar

Það voru hjón um þrítugt sem duttu heldur betur í lukkupottinn þegar þau unnu 261.876.840 krónur í Víkingalottó sem er jafnframt stærsti happdrættisvinningur Íslandssögunnar.

Miðinn var keyptur í N1 við Stórahjalla í Kópavogi sem hjónin segja vera lottósjoppuna sína og gerðu þau sér sérstaka ferð til að kaupa þennan 10 raða sjálfvalsmiða.  Þetta er í annað skiptið sem 1. vinningur í Víkingalottóinu kemur á miða sem er keyptur á þessum sölustað.  

Vinningurinn er sá stærsti í Íslandssögunni.
Vinningurinn er sá stærsti í Íslandssögunni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Hjónin hafa verið dugleg að kaupa Víkingalottó undanfarið og fyrir nokkrum mánuðum fengu þau 5 rétta sem gaf þeim 90 þúsund kall sem þau héldu að væri þeirra „lottóheppni“ en neituðu að gefast upp og það átti sko eftir að borga sig. Eins og svo margir aðrir fengu þau sér bíltúr í veðurblíðunni í gær og keyrðu m.a. fram hjá fallegum húsum og létu sig dreyma um að geta keypt sér rúmbetra húsnæði en þau búa í lítilli íbúð í dag,“ segir í tilkynningu frá Íslenskri getspá.

Ekki datt þeim þá í hug að nokkrum tímum seinna yrðu þau orðin milljónamæringar en það var ekki fyrr en um kvöldið að eiginmaðurinn fór yfir miðann og sá hvers kyns var.

„Hann kallaði á konuna en gat varla sagt henni fréttirnar út af stressi, hún trúði honum hins vegar ekki og leitaði um allt að falinni myndavél sem hún var alveg viss um að leyndist þarna einhvers staðar,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

Vinningsféð er ekki skattskylt og í þessu tilfelli hefur miðinn, sem kostaði einar 800 krónur, verið ansi góð fjárfesting. „Ekki króna í skatt,“ segir Stefán Konráðsson, framkvæmdastjóri Getspár, í samtali við mbl.is. Þetta er í 26. skiptið sem vinningur úr Víkingalottói rennur til Íslendinga, en Íslendingar leggja ekki nema um 2% í pottinn. Íslendingar hafa því hingað til fengið meira úr pottinum en þeir hafa lagt í hann að sögn Stefáns.

Ungu hjónin gátu lítið tjáð sig um framtíðarhorfur, þau ætla að þiggja fjármálaráðgjöf á vegum Getspár.

Frétt mbl.is: Vann 261 milljón í Víkingalottó

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert