Taka yfir allan tónlistarrekstur Senu

Ólafur Arnalds og Sölvi Blöndal verða forsvarsmenn nýja fyrirtækisins.
Ólafur Arnalds og Sölvi Blöndal verða forsvarsmenn nýja fyrirtækisins. Samsett mynd

Hópur tónlistarfólks og áhugamanna um íslenska tónlist hefur tekið sig saman og stofnað nýtt útgáfufyrirtæki. Í fararbroddi verkefnisins eru tónlistarmennirnir Ólafur Arnalds og Sölvi Blöndal. Nýja fyrirtækið mun taka yfir allan tónlistarrekstur Senu, þar með talið allan útgáfu- og upptökurétt auk dreifingarsamninga.

Í samtali við mbl.is segir Sölvi að nú sé um að ræða tímamót í útgáfu tónlistar á Íslandi.

„Tónlistarútgáfan er búin að vera í svolítið dimmum dal undanfarin 10–15 ár með minnkandi sölu á geisladiskum til dæmis. En nú er formið að breytast, geisladiskurinn að deyja en í staðinn kom stafræn tónlist en salan á henni hefur verið stigvaxandi síðustu ár,“ segir Sölvi og bætir við að hann og Ólafur séu gríðarlega spenntir að vera komnir að útgáfustörfum. „Þetta er í fyrsta skipti mér vitandi sem tónlistarmenn koma að svona útgáfufyrirtæki. Við vitum hvernig það er að að vera hinu megin við borðið og ætlum við að nálgast þetta á þeim forsendum.“

Að sögn Sölva mun nýja fyrirtækið, sem er ekki enn komið með nafn, fara á fullt í að semja við nýja tónlistarmenn og viðhalda þeim samningum sem það tekur yfir frá Senu. Eins og fyrr segir taka þeir yfir allan tónlistarrekstur Senu og segir Sölvi það mikinn meirihluta íslenskrar tónlistar. Telur hann að hægt sé að hlúa að íslenskri tónlist með ýmsum hætti  og veitir þetta nýja fyrirtæki þeim tækifæri til þess.

Sölvi verður stjórnarformaður í stjórn fyrirtækisins og Ólafur tekur sæti í stjórninni. Þeir verða jafnframt forsvarsmenn fyrirtækisins.

Sölvi segir að nýja útgáfufyrirtækið muni bæði hjálpa til með kynningarmál á listamönnum sínum og jafnframt veita fjárhagslegan stuðning.

Koma með allt aðra sýn

„En þetta eru viss tímamót því nú erum það við tónlistarmennirnir sem sitjum hinu megin við borðið. Við vitum alveg hvernig það er að vera tónlistarmaður, reyna að búa til nýja músík og setja sjálfan sig að veði í hvert einasta skipti sem maður gefur út nýtt lag,“ segir Sölvi. „Við erum að koma inn með allt aðra sýn en önnur fyrirtæki á Íslandi sem hafa fram að þessu verið í útgáfu tónlistar.“

Hann segir engin ákveðin verkefni fram undan en stefnt er að því að vinna með þeim bestu í íslenskri tónlist dagsins í dag. „Við erum að horfa á alveg ótrúlega flotta grósku í íslensku tónlistarlífi og að sjálfsögðu ætlum við að vinna með rjómanum af þeirri senu hverju sinni,“ segir Sölvi og bætir við að til standi að semja við nokkra helstu listamenn íslenskrar dægurtónlistar á næsta ári eða jafnvel fyrr.

Spurður hvort hann sé ekki spenntur fyrir þessu nýja verkefni svarar Sölvi því játandi. „Þetta er auðvitað ástríðuverkefni fyrir okkur báða, við erum búnir að fylgjast með tónlist síðan við vorum pollar þannig þetta er ástríða á öllum stigum. Ólafur hefur auðvitað verið að gera frábæra hluti erlendis og ég átti feril erlendis í nokkur ár. Við þekkjum þetta umhverfi vel, skuggahliðarnar og líka það jákvæða. Við þurftum að læra þetta sjálfir á sínum tíma en nú getum við nýtt okkar eigin reynslu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert