Erfitt en nauðsynlegt að hafa opna umræðu

Þóra telur að opin umræða um kynferðisbrot hafi orðið til …
Þóra telur að opin umræða um kynferðisbrot hafi orðið til þess að fleiri aðilar stígi fram, tilkynni kynferðisbrot og leiti sér aðstoðar. mbl.is/Árni Sæberg

Mikilvægt er að hafa umræðu um kynferðisleg brot yfirvegaða og faglega. Opin umræða um slík brot er erfið en engu að síður af hinu góða. Þetta segir Þóra Sigfríður Einarsdóttir, sálfræðingur hjá Áfalla- og sálfræðimiðstöðinni.

„Það sem mér finnst skipta mestu máli er hvort við séum að tala um upplýsingar um að ákveðið mörg kynferðisbrotamál, fíkniefnamál og svo framvegis hafi verið framin, eða hvort um sé að ræða lýsingar á málsatvikum. Það er eiginlega grundvallarspurningin. Ég hef ekki séð neitt, hvorki faglegar rannsóknir né af minni klínísku reynslu, sem bendir til þess að það sé skaðlegt fyrir þolendur að tíðniupplýsingar birtist,“ segir Þóra.

Á hinn bóginn telur hún að ítarleg umfjöllun um kynferðisbrot í fjölmiðlum geti verið skaðleg fyrir þolendur. „Það er mjög íþyngjandi og getur verið meiðandi fyrir þolendur þegar það koma fram ítarlegar lýsingar í fjölmiðlum á einni erfiðustu lífsreynslu sem fólk hefur upplifað. Það eru ekkert bara kynferðisbrot, það birtast líka mjög ítarlegar og ljótar lýsingar á líkamsárásum. Það getur aukið á vanda þolandans. Frá sjónarhorni hans myndi ég halda að tíðniupplýsingar ættu ekki að vera skaðlegar en að ítarlegar upplýsingar geti svo sannarlega verið það.“

Umfjöllun getur hvatt þolendur til að stíga fram

Þóra telur að opin umræða um kynferðisbrot hafi orðið til þess að fleiri aðilar stígi fram, tilkynni kynferðisbrot og leiti sér aðstoðar. „Það koma oft svona bylgjur, eins og í Kastljósinu var um tíma mikið fjallað um kynferðisbrot, og þá verðum við fagaðilar mjög varir við það því það stíga yfirleitt þolendur fram og leita sér hjálpar í kjölfarið.“

- Hvernig geta vinir og fjölskylda þolandans hjálpað?

„Það eru margar rannsóknir sem sýna fram á að jákvæður stuðningur í kjölfar ofbeldis skiptir afar miklu máli og getur haft mjög þýðingarmikil áhrif á bata einstaklingsins. Það er kannski fyrst og fremst að trúa einstaklingnum, hlúa að honum og gera sér grein fyrir því að viðbrögðin eru ekki endilega rökrétt, þolendur geta oft verið í hálfgerri afneitun í upphafi og eru kannski svolítið ringlaðir. Það er mjög gott á hátíðum eins og Þjóðhátíð sem ég veit að hefur tekið þessi mál mjög alvarlega, að hafa ákveðinn stað sem allir vita að maður geti snúið sér til. Það er kannski gott fyrir ættingja og vini að hjálpa þolandanum á rétta staði, eins og neyðarmóttökuna,“ segir Þóra. Einnig segir hún að það sé mikilvægt að líta ekki öðruvísi á þolandann eftir atvikið. „Þolendur óttast oft að þeir séu skemmdir á einhvern hátt, það er mikilvægt að sýna að svo sé ekki.“

Þóra segir að fólk ætti að varast að láta stjórnast af tilfinningum sínum þegar um kynferðisbrot er að ræða. „Það er auðvitað þannig að við vitum aldrei alveg hvað gerðist, og það er ekki gott fyrir þolandann þegar það er reynt að geta í eyðurnar og vera með alls kyns upphrópanir.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert