Hefði átt að vera send á bráðamóttöku

Atvikið átti sér stað á skemmtistað í miðborginni.
Atvikið átti sér stað á skemmtistað í miðborginni. AFP

Ung kona sem telur að sér hafi verið byrluð ólyfjan á skemmtistað í miðborg Reykjavíkur gagnrýnir að hún hafði hvorki verið send á bráðamóttöku Landspítalans né tekin af henni skýrsla hjá lögreglu.

Að sögn Kristjáns Inga Kristjánssonar hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar hefði samkvæmt almennu verklagi átt að senda konuna á bráðamóttöku til blóð- og þvagsýnatöku. Hann segist ekki þekkja til málsins þar sem viðkomandi lögreglumaður starfi ekki í kynferðisbrotadeildinni og hvert tilvik þurfi að vega og meta fyrir sig. Að sögn konunnar kom ítrekað fram í máli hennar og vinkonu hennar, sem með var í för, við lögreglu að þær teldu að henni hafi verið byrluð ólyfjan. Í dagbók lögreglu segir að konan hafi fundist inni á salerni og að hún hafi verið sjáanlega ölvuð. Hún hafi þó gengið af sjálfsdáðum út af skemmtistaðnum.

Fólk leiti á bráðamóttöku

Auk lögreglu var sjúkrabíll kallaður á staðinn. Að sögn konunnar ber hún engan kala til lögreglumannanna sem hafi verið kurteisir. Hins vegar geti talist ámælisvert að þeir hafi hvatt hana til þess að fara heim í leigubíl í stað þess að beina henni á bráðamóttöku nauðgana. Hefði stúlkan farið þangað hefði málið ratað inn á borð rannsóknarlögreglu eins og verklag segir til um og væri því í öðrum farvegi en nú er. „Verklagið á að vera þannig að ef grunur leikur á þessu þá á að senda fólk á bráðamóttökuna og blóð er tekið úr því,“ segir Kristján. Hann bendir þó á að lögreglumenn séu oft í útköllum þar sem drukkið fólk á í hlut. Þeirra sé að vega og meta hverju sinni til hvaða úrræða beri að grípa til. Kristján segir þó fulla ástæðu til þess að hvetja fólk sem telji að því hafi verið byrluð ólyfjan að leita til bráðamóttöku.

Ísköld og skjálfandi

Atvikið átti sér stað á aðfaranótt sunnudags skömmu eftir miðnætti. Að sögn ungu konunnar höfðu hún og vinkona hennar drukkið hóflega þetta kvöld. Fóru þær í framhaldinu á ónefndan skemmtistað í miðborginni og fengu sér hvítvínsglas á barnum. Eftir skamma stund hefði hún gengið nokkur skref og fallið í gólfið. Að sögn hennar voru þær einungis búnar að drekka um hálft hvítvínsglas hvor þegar hún féll í gólfið. Eftir það man hún lítið sem ekkert eftir kvöldinu. Atvikalýsing, það sem eftir lifði kvölds, er að mestu byggð á frásögn vinkonu hennar.

Eftir að hafa fallið í gólfið fór hún inn á baðherbergi þar sem hún kastaði upp í um 20 mínútur samfellt að eigin sögn. Að sögn vinkonu hennar varð hún í framhaldinu ísköld og skalf. Gat hún með engu móti tjáð sig þó augun hafi verið opin. Það næsta sem hún man er þegar hún vaknaði á heimili sínu daginn eftir.

Setji sér viðbragðsáætlun

Unga konan segist ekki vilja koma fram undir nafni þar sem hún leiti ekki eftir athygli, en vill koma því á framfæri að mikilvægt sé fyrir fólk sem lendir í slíkum aðstæðum að leita til bráðamóttöku. Þá áréttar hún fyrir fólki að hafa augun á drykkjum sem það hefur meðferðis. Einnig segir hún mikilvægt að skemmtistaðir setji sér viðbragðsáætlun þegar slík tilvik komi upp.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert