Vaða Bláfjallakvísl upp í mitti

Bílvaðið yfir Bláfjallakvísl er töluvert dýpra en vanalega og eru …
Bílvaðið yfir Bláfjallakvísl er töluvert dýpra en vanalega og eru ferðamenn því hvattir ti að fara varlega. Ljósmynd/ Sóla

Ferðafólk sem nú er á göngu um Laugaveginn er hvatt til að gæta varúðar við Bláfjallakvísl vegna mikils rennslis í ánni. Óvenjumikið jökulvatn er þessa dagana í Bláfjallakvísl sem rennur frá norðurhluta Mýrdalsjökuls. Vatnið á bílvaðinu nær til að mynda nú upp í mitti, en er venjulega í hnédýpt.

„Við teljum vaðið ekki hættulegt en biðjum alla að gæta varúðar,“ segir Íris Marelsdóttir, skálavörður í afleysingum í Hvanngili, og kveður skálaverði fylgjast vel með ánni.

„Við erum fyrst og fremst að passa okkar ferðamenn og vörum þá þess vegna við.“ Hún segir skálaverði hvetja þá sem eru óöruggir við að fara yfir ána til að bíða eftir næsta hópi og flestir þeirra erlendu ferðamanna sem finni fyrir óöryggi verði við því.

Vaðið sé óvenjulegt og enn sé jökull í ánni, sem er venjulega tær á þessum árstíma. „Þannig að við höfum verið að senda fólk upp með ánni og það hefur gengið vel,“ segir Íris.

Allir skálaverðir á Laugaveginum fræði þá sem fari um þeirra skála um þessa auknu vatnavexti og bendi fólki á að fara varlega. Þetta sé þó eina vaðið sem hefur breyst og hvergi annars staðar séu erfiðleikar á Laugaveginum þessa dagana. „Það hefur verið tóm hamingja hér í dag og enginn snúið við. Hér er mikið af fólki, m.a. er meira af Íslendingum að ganga Laugaveginn en oft áður, en það eru allir glaðir.“

Gerist oft á sumrin með aukinni bráðnun

Hildur María Friðriksdóttir, náttúruvásérfræðingur, segir aukið vatnsrennsli í Bláfjallakvísl væntanlega tilkomið vegna bráðnunar og breytinga á árfarvegum.

„Þetta getur oft gerst á sumrin þegar það er meiri bráðnun, því þá skipta ár oft um farveg. Þetta er mjög líklega hluti af þeim ám og lækjum sem áður fóru í Emstruánna og eru nú að fara í Bláfjallakvíslinni,“ segir Hildur María.

„Við fylgjumst þó að sjálfsögðu vel með áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert