Vill draga úr ónæði vegna flugumferðar

Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur sent frá sér bókun vegna flugumferðar.
Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur sent frá sér bókun vegna flugumferðar. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur beint þeim tilmælum til flugvallaryfirvalda á Keflavíkurflugvelli og þeirra flugfélaga sem nota flugvöllinn, að reynt verði eftir fremsta megni að draga úr og takmarka óþarfa ónæði sem íbúar Reykjanesbæjar verða fyrir vegna flugumferðar um Keflavíkurflugvöll.

Þetta kemur fram í bókun sem var samþykkt á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar í morgun.

„Til viðbótar við gríðarlega aukningu flugumferðar allan sólarhringinn hefur svokölluð norður-suðurbraut verið lokuð vegna viðhaldsframkvæmda í sumar og verður allt til loka september 2016. Því fer öll flugumferð um brautina sem liggur í austur-vestur,“ segir í bókuninni.

Flugvél tekur á loft frá Keflavíkurflugvelli.
Flugvél tekur á loft frá Keflavíkurflugvelli. Mynd/Delta Air Lines

Þar kemur fram að aðflug úr austri og flugtak í austurátt af þeirri braut liggi beint yfir þéttri íbúðabyggð í Njarðvík en aðflug úr vestri og flugtak í vesturátt fari hins vegar yfir lítið eða óbyggt svæði á vesturhluta Reykjanesskagans, um það bil 8 km suður af Sandgerði.

„Því er þess krafist að flugumferð á tímabilinu 23.00 til 7.00 verði sem mest beint um vestari enda flugbrautarinnar og að flugtaksferlar, sem hannaðir eru til að valda sem minnstum hávaða og ónæði verði á sama tíma í forgangi ef nota á austari hluta flugbrautarinnar,“ segir í bókuninni.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Flugvallaryfirvöld eru einnig hvött til að innleiða reglugerð 666/2015 um rekstrartakmarkanir vegna hljóðmengunar á flugvöllum sem eru staðsettir á Evrópska efnahagssvæðinu.

„Íbúar Reykjanesbæjar hafa í rúm 60 ár búið í sátt og samlyndi við Keflavíkurflugvöll og vilja gera það áfram. Alþjóðaflugvöllurinn er stærsti vinnustaður Suðurnesja og skiptir gríðarlega miklu máli fyrir mannlíf svæðisins. Bæjaryfirvöldum er fullkomlega ljóst að taka þarf tillit til öryggis, veðurs og vinda, flugtíma, eldsneytisnotkunar o.fl. Með þessari bókun er þó verið að biðja um að lífsgæði íbúa og gesta Reykjanesbæjar verði jafnframt höfð ofarlega í huga þegar ákvarðanir eru teknar um hvaðan og hvernig skuli tekið á loft og lent,“ segir í bókuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert