Keppni í Hvalfirði vekur heimsathygli

Heather Wurtele, sigurvegari í kvennaflokki, við Fossárfoss.
Heather Wurtele, sigurvegari í kvennaflokki, við Fossárfoss. Ljósmynd/Arnold Björnsson

Þríþrautarkeppni Challence Iceland í hálfum járnkarli fór fram hér á landi um síðustu helgi og hafa fjölmiðlar víða um heim fjallað um keppnina, sem fram fór í Hvalfirði. Keppendur syntu 1,9 kílómetra í Meðalvellsvatni, hjóluðu því næst 90 kílómetra í Hvalfirði og luku keppni svo með hlaupi hálfmaraþons, 21,1 kílómetra.

Brad Kahlfeldt frá Ástralíu. Kahlfeldt var í góðri stöðu en …
Brad Kahlfeldt frá Ástralíu. Kahlfeldt var í góðri stöðu en neyddist til að hætta keppni. Hann hefur keppt tvisvar í þríþraut á ólympíleikunum; 2008 og 2012, og sigraði þríþrautina á Samveldisleikunum 2006. Ljósmynd/Arnold Björnsson

Einn stærsti íþróttaviðburður sem haldinn hefur verið

Keppnin um síðustu helgi var sú fyrsta í Challenge-mótaröðinni sem haldin er hér á landi, en hún er ein þriggja stórra mótaraða í þríþraut, ásamt ITU og WTC. 47 keppnir eru í mótaröðinni og keppt er í 23 löndum. Ísland er nú orðið hluti Challenge-mótaraðarinnar, sem þýðir að keppendur safna jafnmörgum punktum með því að keppa hér á landi og annars staðar, verðlaunafé er það sama og jafnmörg laus sæti á heimsmeistaramótinu eru í boði.

Þetta er því einn stærsti íþróttaviðburður sem haldinn hefur verið hérlendis og eitt fárra alþjóðlegra móta. Stórir erlendir fjölmiðlar hafa fjallað um keppnina, til að mynda Gazzetto dello Sport á Ítalíu, en Ítalinn Giulio Molinari hafnaði annar í karlaflokki, og Lava magazine, sem er stærsta þríþrautarblað heims. Þá birtir hjólaframleiðandinn Cervelo mynd úr keppninni á heimasíðu sinni, en hann er aðalstyrktaraðili Heather Wurtelo, sem sigraði í kvennaflokki og er „jafnvel sterkust í heiminum í dag í þessari vegalengd“ að sögn Péturs Einarssonar frá Challenge Iceland.

„Við erum að senda myndir á fjölmiðla út um allan heim. Það eru kannski allir búnir að sjá úrslitin en þetta er meira svona almennt, hvað þetta er geggjuð keppni og sýna þessar myndir,“ útskýrir Pétur. „Myndirnar eru svakalegar fyrir útlendinga. Þetta er engin smá landkynning.“

Íslensk náttúrufegurð heillaði útlendinga.
Íslensk náttúrufegurð heillaði útlendinga. Ljósmynd/Arnold Björnsson

Áströlsk stjarna hjálpaði til

Segir hann mikla vinnu að baki því að fá keppnina hingað til lands, en mikil samkeppni er um mótshald í Challenge og um 300 keppnir um allan heim sækjast eftir því að fá inni. Spurður hvernig koma svo stórrar keppnir til Íslands hafi komið til, svarar Pétur: „Við vorum allir að keppa í þríþraut. Við fórum út og sáum keppni. Svo fórum við heim að æfa og þjálfa og stofnuðum einhverjar keppnir og djöfluðumst í þessu.“

Byrjað var að halda keppni í Kjósinni til að prófa svæðið og reyndist það vel. „Við höfðum þá samband við Chris McCormack, sem er fyrrverandi fjórfaldur heimsmeistari frá Ástralíu og stærsta nafnið í þessum geira í heiminum. Eftir sex mánuði náðum við að sannfæra hann um að koma til Íslands og hann kom hérna síðasta sumar og keppti. Það var svona vendipunktur. Þá sá hann hvað þetta er frábær braut og frábærar aðstæður.“

Chris tók þátt í keppni sem bar einfaldlega heitið Járnmaðurinn og í kjölfarið kom hann Íslendingunum í samband við Challenge, sem endaði með því að nú er mótaröðin komin hingað til lands. „Að sjá það núna, kannski fimm árum seinna, að við séum komin með svona mót hérna á Íslandi, er ólýsanleg tilfinning.“

Nick Saunders frá Zimbabwe og Brad Brown frá Bandaríkjunum báðir …
Nick Saunders frá Zimbabwe og Brad Brown frá Bandaríkjunum báðir í flokki áhugamanna. Nick sigraði þrautina í fyrra. Ljósmynd/Arnold Björnsson

Mótshaldið er gríðarlega stórt og kostnaðarsamt verkefni, en íslensk fyrirtæki hafa stutt við bakið á keppnishöldurum. Hátt í 100 sjálfboðaliðar komu að keppninni síðustu helgi eða álíka margir og keppendurnir voru. „Við munum væntanlega setja 300 keppenda hámark á næsta ári, því eftir þessa umfjöllun hefur rignt yfir okkur fyrirspurnum, svo við ætlum að takmarka fjöldann og það verður uppselt. Við viljum bara byggja þetta upp hægt og rólega og finna mörkin. Að fara úr 100 í 300 verður stórt skref.“

 „Við markaðssetjum okkur sem nyrstu svona keppnina í heimi. Þeir sem voru að keppa sögðu þetta erfiðustu svona keppni sem þeir hafa tekið þátt í. Það var rigning og svolítið kalt og það hættu nokkrir.“

Keppnin frábær fyrir íslenska íþróttahreyfingu

Sú athygli sem keppnin hefur fengið erlendis er frábær landkynning og segir Pétur hana geta haft áhrif á aðra íþróttaviðburði hér á landi, sem atvinnumenn erlendis horfa síður til núna. „Það er auðvitað fullt í gangi; Reykjavíkurmaraþonið, Laugavegshlaupið og allt þetta, sem hafa fyrst og fremst verið „local“ keppnir. Það er kannski tækifæri að koma þeim inn í alþjóðlegar mótaraðir og gera þær stórar.“

Jenny Fletcher klárar sundið á 28:44 og Tine Deckers í …
Jenny Fletcher klárar sundið á 28:44 og Tine Deckers í humátt á eftir. Þær Jenny og Tine kepptu báðar í heilum járnmanni helgina á undan. Ljósmynd/Arnold Björnsson

Challenge Iceland gæti því reynst ómetanlegt fyrir íslensk íþróttalíf, útskýrir Pétur. Keppnin setji markið hærra og sé mikil og góð hvatning fyrir unga íþróttamenn„Við erum að fá fólk alls staðar úr heiminum, þetta lyftir sportinu á Íslandi. Ekki bara þríþraut heldur hjólreiðum, sundi, hlaupi –bara öllum frjálsum íþróttum. Fyrir okkur að vera hér að keppa við margfalda heimsmeistara setur þetta upp á annað plan.“

Bandaríkjamaðurinn Kevin Collington, sigurvegari Challenge Iceland í karlaflokki. Collington hefur …
Bandaríkjamaðurinn Kevin Collington, sigurvegari Challenge Iceland í karlaflokki. Collington hefur átt gott ár og er á leið á heimsmeistaramótið á Hawaii. Ljósmynd/Arnold Björnsson







mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert