Átti að sækja munina og borga síðar

Tilkynnt var um tvö innbrot til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi. Í öðru málinu fullyrti maður sem gripinn var við að bera muni út úr geymslu að hann hefði keypt hlutina, ætti að sækja þá sjálfur og borga seljanda síðar.

Það var um hálftíu í gærkvöldi sem lögreglu barst tilkynning um mann sem var að fara inn í geymslu við mannlaust hús í Kópavogi og bera þar út muni.  Þegar lögreglan kom á staðinn, sagðist maðurinn hafa keypt hlutina eftir að hafa séð þá auglýsta og að honum hefði verið sagt að sækja hlutina þarna og borga seljanda síðar.  

Maðurinn var búinn að spenna upp hurð til að nálgast munina þegar lögregla kom á staðinn, voru þeir teknir af manninum og afhentir eiganda, en maðurinn verður kærður fyrir þjófnað.  

Þá var tilkynnt um innbrot í skrifstofuhúsnæði við Grensásveg, en þar hafði verið farið inn og stolið fartölvu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert