Eitthvað um skúrir sunnanlands

Búast má við rólegu veðri í dag að sögn Helgu Ívarsdóttur, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Þegar líður á daginn má þó búast við skúrum sunnanlands og mögulega stöku skúrum vestanlands. Veður fer hins vegar batnandi á norðanverðu landinu og má búast við að það birti töluvert til á Norðvesturlandi. Þó gæti enn verið þungbúið á annesjum. Þá verður úrkomulítið á Norðaustur- og Austurlandi og gæti jafnvel brotnað eitthvað upp.

Í dag má búast við að hiti fari hæst í 17-18 stig og verður hlýjast suðvestan- og vestanlands. Á morgun verður hins vegar hlýjast norðan- og vestanlands og gæti hiti þar náð 15-17 stigum síðdegis á morgun.

„Á morgun verða öflugri skúrir sunnan- og vestanlands og allgóðar dembur,“ segir Helga. Skúrirnar verða mestar síðdegis, en þó má búast við skúrum allan daginn. Hún telur þó enga ástæðu til að stytta verslunarmannahelgarútileguna vegna þessa. „Fólk ætti bara að njóta þess og þurrka svo tjaldið er heim er komið.“

Á Norðurlandi eru minni líkur á skúrum á morgun og gæti verið ágætisveður þar, segir Helga og bætir við að þar hlýni heldur og sjáist aðeins til sólar, þó að líklega nái hitinn ekki tuttugu stigum líkt og hann gerði á Suðurlandi í gær.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert