Eva María setti nýtt Íslandsmet

Eva María stökk 1,61 í hástökki í flokki 13 ára …
Eva María stökk 1,61 í hástökki í flokki 13 ára stúlkna á Unglingalandsmóti UMFÍ 2016. Ljósmynd/UMFÍ

Eva María Baldursdóttir frá HSK setti í dag nýtt Íslandsmet í hástökki stúlkna í flokki 13 ára á unglingalandsmóti UMFÍ í Borgarnesi. Eva María stökk 1,61 metra og bætti þar með gamla metið um einn sentímetra og kveðst í samtali við mbl.is gríðarlega ánægð með árangurinn.

Hún segist lengi hafa stefnt að því að ná góðum árangri á mótinu. „Í svona hálft ár eða síðan ég fór til Gautaborgar með HSK Selfoss,“ segir Eva María, en þangað fór hún í keppnisferð fyrr á árinu. „Það gekk mjög vel og þá bætti ég mig í hástökki einmitt.“

Eva María, sem verður 13 ára í september, reyndi einnig við 1,63 í næsta stökki en náði því ekki. Næsta markmið Evu Maríu er að reyna að ná að stökkva 1,65 m en hún á sér góða keppinauta í greininni sem gefa henni ekkert eftir.  

Í öðru sæti í hástökki 13 ára stúlkna var Jana Sól Valdimarsdóttir frá UMSK, en hún stökk 1,55 m og í þriðja sæti varð Sara Ragnheiður Kristjánsdóttir frá UFA, með stökk upp á 1,52 m.

Mikill kraftur hefur verið á unglingalandsmóti UMFÍ um helgina og mörg landsmótsmet verið slegin í frjálsum íþróttum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert