Nóttin róleg víða um land

Nóttin var nokkuð róleg hjá lögreglu víða um land. Töluverður erill var þó hjá lögreglunni á Suðurlandi, einkum á tjaldstæðinu á Flúðum að því er RÚV greinir frá, en um 60.000 manns dvelja nú í Árnessýslu þar sem góða veðrið hefur leikið við menn það sem af er verslunarmannahelginni.

Í Vestmannaeyjum segir lögregla nóttina einnig hafa verið frekar rólega, en alltaf sé þó eitthvað um pústra þar sem svo margir komi saman. Tilkynnt var um tvær líkamsárásir og gisti einn maður fangaklefa lögreglunnar í bænum vegna þess máls í nótt. Ekki er þó búið að kæra líkamsárásirnar og segir lögregla málin vera í skoðun og ekki liggi enn fyrir hversu alvarlegar árásirnar hafi verið. Ekki fæst uppgefið hvort tilkynnt hafi verið um kynferðisbrot.

Rólegt var á Ísafirði og sagði lögreglumaður oft hafa verið fleiri í bænum en nú. „Við erum með rjómann af fólkinu,“ sagði hann og kvað lítið um vandamál.

Nóttin var einnig róleg á Akureyri, tveir gistu þó fangageymslu lögreglunnar í nótt; annar vegna ölvunar og hinn hafði verið með ofstopa í miðbænum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert