Hafa áhyggjur af ástandinu í Tyrklandi

Hanna Birna Kristjánsdóttir formaður utanríkismálanefndar Alþingis.
Hanna Birna Kristjánsdóttir formaður utanríkismálanefndar Alþingis. mbl.is/Ómar

Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, segir að samhljómur sé á meðal nefndarmanna um mikilvægi þess að íslensk stjórnvöld séu vakandi yfir þróun mála í Tyrklandi. 

Á fundi nefndarinnar í morgun, þar sem ástandið í landinu var rætt, lýstu nefndarmenn yfir áhyggjum sínum af gagnaðgerðum tyrkneskra stjórnvalda í kjölfar þess að valdaránstilraunin í landinu var brotin á bak aftur um miðjan júlímánuð. Íslensk stjórnvöld þyrftu að koma sjónarmiðum sínum um frelsi og mannréttindi áleiðis til ráðamanna í Tyrklandi.

Boðað var til fundarins í morgun að frumkvæði Steinunnar Þóru Árnadóttur, þingmanns Vinstri grænna. Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra kom til fundarins og gerði grein fyrir afstöðu íslenskra stjórnvalda til atburðarásarinnar í Tyrklandi.

Eins og kunnugt er hefur Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, látið handtaka eða reka úr starfi þúsundir manna, svo sem hermenn, dómara, blaðamenn og kennara í kjölfar valdaránstilraunarinnar 15. júlí síðastliðinn. 

Frétt mbl.is: Mótmæla mannréttindabrotum í Tyrklandi

Hanna Birna segir að atburðirnir í kjölfar tilraunarinnar hafi ekki aðeins verið til umræðu á fundinum, heldur jafnframt þróunin í landinu á umliðnu ári.

Mannréttindi verði virt

Hún sagði skilaboð íslenskra stjórnvalda hafa verið skýr: að mannréttindi yrðu virt. Ekki mætti gefa eftir þá kröfu. Á fundinum hefði komið fram mikil ánægja með afdráttarlaus skilaboð íslenskra stjórnvalda og utanríkisráðherrans. Halda þyrfti áfram að koma þeim áleiðis.

AFP

„Það eru auðvitað atburðir að gerast þarna þessa dagana sem allir hafa áhyggjur af. Nefndarmenn voru sammála og einnig utanríkisráðherra um að við ættum að láta í okkur heyra á þeim vettvangi sem það er mögulegt, til dæmis hjá NATO, Evrópuráðinu og víðar,“ segir Hanna Birna.

Engin ákvörðun tekin

Hún segir fundinn fyrst og fremst hafa verið samráðsfund. Engin ákvörðun hafi verið tekin um framhald málsins. „En það mátti alveg heyra það á nefndarmönnum að vilji væri til þess að Alþingi kæmi einhvern veginn með sterkari hætti inn í þessa umræðu. Einnig var það nefnt hvort utanríkismálanefnd ætti að taka þéttar utan um málið. Hún hefur heimildir til þess. 

En engin ákvörðun var tekin um slíkt. Það kemur ekki í ljós fyrr en þingið kemur saman aftur,“ segir hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert