Kvartaði yfir kynferðislegri áreitni og var sagt upp

Vigdís Ósk Howser.
Vigdís Ósk Howser. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er bara allt of algengt, bæði kynferðisleg áreitni og bara misrétti, er ótrúlega algengt í þessum bransa,“ segir Vigdís Ósk Howser í samtali við mbl.is. Vigdís hóf störf á veitingastað í miðborg Reykjavíkur fyrir ekki alls löngu en hefur nú verið sagt upp störfum. Að sögn Vigdísar kom uppsögnin henni í opna skjöldu og beint í framhaldi af því að hún kvartaði yfir kynferðislegri áreitni og dónaskap annars starfsmanns á staðnum. 

Vigdís segir þetta ekki vera í fyrsta skipti sem hún verður fyrir slíkri upplifun í veitingageiranum en í þetta sinn ákvað hún að tjá sig um málið á Facebook-síðu sinni. Vigdís kveðst að öðru leyti hafa verið ánægð með nýju vinnuna og ákvað því að ræða málið við yfirmann sinn. Hún segir að í kjölfarið hafi fleiri komið fram, bæði karlar og konur, og kvartað yfir því að þeim liði illa í starfi vegna framkomu starfsmannsins.

Jón Mýrdal, eigandi veitingarstaðarins, segir í skriflegu svari til mbl.is að hann vilji ekki tjá sig um ástæður þess að fólk hætti eða sé sagt upp. Sem eigandi staðarins vilji hann þó taka fram að ábendingar Vigdísar séu teknar alvarlega.

Stelpunum sagt upp en strákunum ekki

Nú hefur Vigdísi, auk annarrar þjónustustúlku sem var með henni á vakt, verið sagt upp störfum. Þá hefur að sögn Vigdísar sú þriðja verið lækkuð úr stöðu vaktstjóra í almennt þjónastarf. Þá segir Vigdís að karlmaður, sem einnig hafði kvartað og er starfsmaður staðarins, hafi sagt upp störfum að eigin frumkvæði. „Hann hefði ábyggilega verið rekinn ef hann hefði verið kona,“ segir Vigdís.

Vigdís hafði lent í vandræðum með að stimpla sig inn í vinnunni og hafði árangurslaust reynt að hafa samband við eiganda vegna þessa. Í fyrradag var hún beðin að mæta á vinnustaðinn þar sem henni var tilkynnt um uppsögnina og voru henni gefnar þær skýringar að uppsögnin byggði á framkomu hennar og umkvartana vegna umrædds starfsmanns.

„Ég bjóst við að það ætti að komast til móts við vanlíðan starfsmanna á staðnum en ekki að segja þeim upp,“ segir Vigdís, „Og ég var bara orðlaus, ég gat ekkert sagt.“

Tímabært að taka á málinu

„Það eru svo margir sem lenda í þessu og það segir aldrei neinn neitt,“ segir Vigdís, en í fyrstu hugðist hún ekki hafast frekar að vegna málsins. En í ljósi þess að eigandi staðarins hefur ekki svarað símtölum hennar og þar sem mál sem þessi eru algeng, ákvað Vigdís að greina frá málinu. „Af því ég veit alveg að ég hef rödd og fólk hlustar á mig,“ segir Vigdís, en hún er meðlimur hljómsveitarinnar Reykjavíkurdætra.

Vigdís hafði ekki unnið nema sjö vaktir þegar henni var sagt upp. Hún segir staðinn, sem var nýlega opnaður, vera mjög vinsælan og lofa góðu en allar vaktirnar sem hún vann voru tíu klukkustundir hið minnsta, enda vaktin undirmönnuð og hún ekki alltaf getað tekið salernis- og matarhlé.

Hún hefur ekki haft samband við stéttarfélag vegna málsins en telur tímabært að á vandanum sé tekið þar sem mál á borð við þetta séu tíð í veitingageiranum.

Taka ábendingum Vigdísar alvarlega

Staðurinn sem um ræðir heitir Messinn og er í eigu Jóns Mýrdals. Jón segir í skriflegu svari til mbl.is að hann vilji ekki tjá sig um ástæður þess að fólk hætti eða sé sagt upp. Ráðningar og uppsagnir séu á ábyrgð veitingastjóra staðarins. Sem eigandi staðarins vilji hann þó taka fram að þessar ábendingar Vigdísar séu teknar alvarlega. „Óviðeigandi athugasemdir og karlremba eiga ekki að líðast í veitingageiranum frekar en í öðrum starfsgreinum. Við munum taka á og reyna að breyta því ef slíkt andrúmsloft hefur myndast á vinnustaðnum. Við viljum bjóða upp á öruggt umhverfi fyrir starfsfólk og samskipti sem byggjast á gagnkvæmri virðingu. Við munum fara í saumana á þessu og ræða bæði nánar við Vigdísi og við okkar starfsfólk. Okkur þykir afar leitt að heyra af þessu,“ segir í svarinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert