Gleymdir þú einhverju á Þjóðhátíð?

Af Facebook-síðu lögreglunnar í Vestmannaeyjum

Lögreglan í Vestmannaeyjum hefur birt myndir af óskilamunum eftir Þjóðhátíð á Facebook-síðu embættisins og kennir þar ýmissa grasa. Má þar nefna síma af öllum stærðum og gerðum. En þeir hafa flestir skilað sér til eigenda sinna eftir myndbirtingarnar, að sögn lögreglu.

Lögreglan segir að ekki sé meira af óskilamunum nú en á fyrri Þjóðhátíðum og að vel gangi að koma óskilamunum til réttra eigenda eftir að byrjað var að birta myndir af þeim á Facebook. Enda mun auðveldara heldur en að láta fólk lýsa því í síma hvernig viðkomandi taska eða bakpoki lítur út. Hvetur lögreglan fólk sem saknar einhvers eftir hátíðina til þess að kíkja á Facebook-síðuna og skoða myndirnar.

Af Facebook-síðu lögreglunnar í Vestmannaeyjum

Mest er af bakpokum og fatnaði en engin tjöld komu inn á borð lögreglu. Drasl sem skilið var eftir í Herjólfsdal að lokinni Þjóðhátíð endaði að megninu til í ruslagámum en þrír ruslagámar voru fylltir af hreinsunarflokkum sem önnuðust þrif eftir hátíðina.

Lögregla telur að fimmtán þúsund manns hafa sótt Þjóðhátíð Vestmannaeyja í ár og er hátíðin með þeim allra stærstu sem haldnar hafa verið.

Af Facebook-síðu lögreglunnar í Vestmannaeyjum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert