Stolnir grænmetiskassar stórt vandamál

Grænir grænmetiskassar í verslun.
Grænir grænmetiskassar í verslun. mbl.is/Hjörtur

Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna, segir að búið sé að þjóðnýta grænmetiskassana sem félagið flytur inn frá Bretlandi. Hann segir að kassana eigi að endurnýta og því sé um gríðarlegt umhverfissjónarmið að ræða.

„Þessi endalausa notkun ótrúlegustu aðila á grænmetiskössunum okkar er farin að ná út fyrir allan þjófabálk,“ segir Gunnlaugur.

„Það er búið að þjóðnýta þessa kassa okkar. Þú sérð þá í öllum mötuneytum, matvælavinnslum, heimilum og bílskúrum. Alls staðar eru grænmetiskassarnir okkar komnir á hina ótrúlegustu staði,“ bætir hann við og segir að innfluttar vörur hafi einnig verið settar í kassana og seldar þannig. Því haldi margir að um íslenskar vörur sé að ræða.

Paprikur flokkaðar í grænmetiskassa.
Paprikur flokkaðar í grænmetiskassa. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson


Skila sér ekki til baka

Íslensku grænmeti er dreift í kössunum og hafa dreifingaraðilar tekið að sér að koma þeim til baka til Sölufélags garðyrkjumanna. Þar sér félagið um að þvo þá og koma þeim svo aftur í umferð. Að sögn Gunnlaugs ákveða þeir sem taka við kössunum oftast að nota þá í allt annað, eða þá að dreifingaraðilarnir standa sig ekki í stykkinu við að taka þá til baka.

Endurnýta milljón kassa á ári

„Þetta er gríðarlegt umhverfissjónarmið sem fylgir þessu. Við erum búin að koma í veg fyrir notkun á 10 milljón einnota kössum með þessu framtaki okkar á undanförnum árum, sem er gríðarlegt magn,“ greinir Gunnlaugur frá.

„Við erum að þvo hátt í milljón kassa á ári, sem við endurnýtum alltaf. En við þurfum samt alltaf að kaupa nýja inn í kerfið. Við héldum að við værum búnir að fylla alla bílskúra, mötuneyti og stór eldhús af þessu en það virðist ekkert lát vera á því hvað menn koma þessu illa til skila," segir hann.

„Auðvitað er þetta ekkert smekklegt að menn séu að stela kössum frá garðyrkjubændum til að nota undir kannski eldiviðakubba í bílskúrnum hjá sér eða eitthvað annað. Þetta er ekkert fallegt.“

Hann segir félagið hafi reynt að taka á málinu og m.a. óskað eftir liðsinnis heilbrigðisyfirvalda. Þau hafi aftur á móti neitað að taka þátt, enn sem komið er.

„Þetta á að fara í endurnýtingahagkerfið. Þetta er mikið umhverfisspursmál að vera ekki að nota einnota umbúðir fullkomlega að óþörfu.“

Gunnlaugur Karlsson.
Gunnlaugur Karlsson. Ljósmynd/Aðsend

Fimm gámar fyrir 30 milljónir

Gunnlaugur segir að félagið hafi nýlega flutt inn fimm gáma með grænmetiskössum fyrir nálægt 30 milljónir króna. Þrátt fyrir það sé félagið aftur orðið kassalaust og því hafi tveir gámar til viðbótar verið pantaðir. Alls hafi um 30 þúsund kassar verið keyptir en þeir hefðu aldrei þurft að vera nema 5 til 10 þúsund ef allt væri eðlilegt.

Það kostar Sölufélag garðyrkjubænda að meðaltali um eina til eina og hálfa milljón á mánuði að kaupa grænmetiskassana. Gunnlaugur segir það kannski tífalt magn miðað það sem væri eðlilegt. Eðlilegast væri að það væri rýrnum upp á tvö til þrjú hundruð kassa á mánuði en í staðinn er hún 1.000 til 1.500 kassar. Allur þessi auka kostnaður bitni á endanum á bændum.

„Það sárnar mest þegar fólk er farið að henda þessu. Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á það. Það fer að vera þungbært ef við erum að kaupa milljón kassa á ári og þeim er hent út á hauga."

Erfitt að koma vörum á markað

„Það þarf átak til að fólk átti sig á alvöru málsins. Það er ekki sniðugt að beina mönnum aftur yfir í einnota umbúðir,“ segir hann og nefnir að síðustu vikuna fyrir verslunarmannahelgi hafi litið út fyrir að félagið kæmi vörum ekki á markað því það vantaði kassa. Samt var það nýbúið að kaupa allt þetta magn.

„Við erum í þeirri stöðu að við erum við að nálgast háuppskerutímann og eigum í stórkostlegum í erfiðleikum með að koma vörunni á markað vegna þess að kassarnir skila sér mjög illa í hús,“ segir hann.

 „Við þurfum að óbreyttu að neyðast til að endurskoða þessi mál frá grunni og það væri mikil afturför að þurfa að fara aftur í einnota umbúðir undir grænmetið," bætir Gunnlaugur við.

„Hitt er annað mál að eftirspurnin eftir íslensku grænmeti hefur aldrei verið meiri og við erum afskaplega þakklát fyrir það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert