Þúsundir Zúista ekki fengið greitt

Stjórn Zúista hefur lýst sig andsnúna ríkisstyrkjum til trúfélaga.
Stjórn Zúista hefur lýst sig andsnúna ríkisstyrkjum til trúfélaga. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Trúfélag Zúista hefur ekki greitt meðlimum félagsins þann fjárstyrk sem það fær mánaðarlega frá ríkinu. Á vefsíðu þess segir að styrkurinn verði greiddur til félagsmanna tvisvar á ári.

„Hugmyndin var í raun alltaf sú að safna saman sóknargjöldunum og greiða þau út í einum skammti, en líklega borgar sig að gera það aðeins einu sinni á ári,“ segir Snæbjörn Guðmundsson, einn stjórnarmeðlima félagsins, og bendir á mikinn umsýslukostnað sem annars gæti fylgt tíðari greiðslum.

Ríkið greiðir 15. hvers mánaðar inn á reikning allra skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga en greiðslur inn á reikning félagsins hafa verið frystar að sinni. Ástæðan er kæra skráðra forsvarsmanna rekstrarfélagsins Zuism á hendur ríkinu, en þeir stofnuðu trúfélagið árið 2013 áður en núverandi stjórn tók við.

Krefjast þeir sóknargjaldanna sem nú hafa safnast, en um 3.200 manns eru skráðir í félagið og nemur greiðslan frá ríkinu 10.800 krónum fyrir hvern meðlim á ársgrundvelli. Um 35 milljónir króna munu því safnast á árinu vegna þessa.

„Pollróleg“ í stjórninni

Mál stofnendanna er sömuleiðis á borði innanríkisráðuneytisins en Snæbjörn segist vonast til að úr þessu verði leyst fljótlega.

„Við treystum kerfinu til að leysa úr þessu og viljum því helst ekki tjá okkur um þetta. Auðvitað er þetta leiðinlegt en við bjuggumst svo sem heldur ekki við því að þetta gengi allt smurt fyrir sig. Við sem í stjórninni sitjum erum pollróleg.“



Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert