Forsetahjónin taka þátt í fiskisúpukvöldinu

Forsetahjónin heimsóttu Sólheima á miðvikudag, í dag er það Norðurland.
Forsetahjónin heimsóttu Sólheima á miðvikudag, í dag er það Norðurland. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fiskidagurinn, Handverkshátíð og gleðiganga hinsegin daga eru á dagskrá hjá nýjum forsetahjónum, þeim Guðna Th. Jóhannessyni og Elizu Reed, nú um helgina og halda þau í sína fyrstu opinberu heimsókn á Norðurland nú í dag.

Heimsóknin norður hefst á Handverkshátíð og landbúnaðarsýningunni  á Hrafnagili í Eyjafirði. Þar munu þau Guðni og Eliza ganga um sýningarsvæðið undir leiðsögn skipuleggjenda og gefst þá færi á að skoða þær fjölbreyttu afurðir og starfsemi sem fjöldi einstaklinga, fyrirtækja og samtaka kynnir á sýningunni.

Frá Hrafnagili liggur leið forsetahjónanna síðan til Dalvíkur þar sem Bjarni Th. Bjarnason sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar tekur á móti þeim við Dalbæ, dvalarheimili aldraðra í Dalvíkurbyggð, þar sem forsetahjónin heilsa upp á heimilisfólk og starfsmenn. Þau Guðni og Eliza heimsækja því næst yngstu borgara bæjarins á leikskólanum Krílakoti áður en gengið verður til messu í Dalvíkurkirkju.

Í kjölfarið hefst dagskrá í kirkjubrekkunni sem markar upphaf Fiskidagsins mikla. Júlíus Júlíusson framkvæmdastjóri setur hátíðina, leikskólabörn syngja lög og viðstaddir taka höndum saman í vináttukeðju. Þá flytur forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson ræðu sem helguð er vináttukeðjunni.

Forsetahjónin taka síðan þátt í fiskisúpukvöldinu, en þau munu í kvöld ganga með sveitarstjóra milli heimila á Dalvík, þiggja góðgerðir og spjalla við heimamenn og gesti.

Þau Guðni og Eliza taka síðan áfram þátt í dagskrá Fiskidagsins mikla framundir hádegi á morgun, áður en haldið er til Reykjavíkur á ný þar sem nýr forsetinn flytur síðdegis ræðu við upphaf útihátíðar gleðigöngu hinsegin daga. Gert er ráð fyrir að gleðigangan hefjist klukkan 14 við Vatnsmýrarveg og er gert ráð fyrir að hátíðarhöld hefjist við Arnarhól um klukkan 15.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert