Synti 11 km leið frá Eyjum

Jón Kristinn Þórsson sést hér leggjast til sunds í Eyjum …
Jón Kristinn Þórsson sést hér leggjast til sunds í Eyjum í gærkvöldi. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson
Jón Kristinn Þórsson, 44 ára lögreglumaður úr Reykjavík, lagðist til sunds á Eiðinu í Vestmannaeyjum klukkan 23 í gærkvöldi og tók stefnuna á Landeyjasand. Bein loftlína er um 11 kílómetrar og kom Jón Kristinn að landi klukkan 6:23 í morgun. Fjallað er um sund Jóns Kristins á vef Eyjafrétta.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Vestmannaeyjum kom Jón Kristinn mun vestar að landi í Landeyjum en til stóð vegna mikilla strauma á leiðinni.  Jón Kristinn áætlaði að sundið tæki fjórar klukkustundir en straumur í Álnum var erfiðari en gert var ráð fyrir. 
 
Það var nákvæmlega klukkan 23:02 sem Jón Kristinn lagðist til sunds á Eiðinu. Sjávarhiti í Álnum milli lands og Eyja er rétt tæpar tólf gráður og er hann hæstur á þessum tíma sólarhringsins sem er einmitt ástæðan fyrir því að Jón Kristinn valdi þennan tíma, segir í frétt Eyjafrétta.
Jón Kristinn var smurður hátt og lágt með þykkri feiti, …
Jón Kristinn var smurður hátt og lágt með þykkri feiti, var í sundskýlu og með hettu en var að öðru leyti óvarinn. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson
 
Jón Kristinn hefur stundað sjósund lengi og synti Drangeyjarsund sumarið 2014. „Strax eftir það ákvað ég að reyna við Landeyjasund,“ sagði Jón Kristinn við blaðamann Eyjafrétta þar sem hann var að gera sig kláran fyrir sundið.
 
Hann var smurður hátt og lágt með þykkri feiti, var í sundskýlu og með hettu en var að öðru leyti óvarinn. Honum fylgdu tveir bátar með þrautreyndum lögreglumönnum þannig að alls öryggis er gætt. Þetta er engu að síður mikil þrekraun en þetta hefur verið gert áður. Eyjólfur Jónsson synti Landeyjasund árið 1959 og Axel Kvaran 1961.
Jón Kristinn Þórsson.
Jón Kristinn Þórsson. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert