Vonast eftir homma í landsliðið

Guðni Th. Jóhannesson ávarpar fjöldann við Arnarhól í dag.
Guðni Th. Jóhannesson ávarpar fjöldann við Arnarhól í dag. mbl.is/Freyja Gylfadóttir

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ávarpaði þúsundir gesta Hinsegin daga á Arnarhóli, að lokinni Gleðigöngunni í dag.

Þakkaði hann þann heiður sem sér væri sýndur með því að fá að ávarpa fjöldann. Kynnar hátíðarinnar sögðu Guðna fyrsta þjóðhöfðingjann sem kæmi fram og talaði á hátíð hinsegin fólks, en forsetinn sagði sjálfsagt að koma fram á slíkri hátíð. „Á forsetastóli ætla ég hvorki að vera siðapostuli né byltingarsinni. Það ætti ekki að vera neitt stórmál að ég flytji hér lítið ávarp.“

Sagði Guðni að á þessari hátíð hinsegin fólks, sem haldin væri af hinsegin fólki, kæmu aðrir, þeir sem ekki væru hinsegin, tækju þátt í henni og samgleddust. Allir hefðu í raun sama málstað að verja, sama tilefni til að gleðjast. „Frelsi og framfarir, samstaða, umburðarlyndi og mannréttindi. Þessi leiðarljós eiga að skína skýr í samfélagi fólks.“

Framfarir í réttindabaráttu hinsegin fólks hafa verið miklar og fagnaði forsetinn því að í dag geti fólk komið út úr skápnum án þess að eiga á hættu útskúfun, skömm, vinamissi, rofin tengsl við fjölskyldu og jafnvel líkamlegt ofbeldi og sagði einstaklingsfrelsið mikils virði.

„Enn þarf eflaust hugrekki til að koma út úr skápnum. Ég þekki það ekki af eigin raun, ég er ekki hommi. Hitt get ég þó rifjað upp, frá þeim árum sem ég var frámunalega feiminn unglingur, óviss um eigin ágæti, hvað þá útlit, að dýrmætt frelsi, einstakt frelsi, er fólgið í því að hafa ekki áhyggjur af því hvað aðrir halda um mann, eða hvað maður heldur að aðrir haldi um mann.“

Guðni minntist árásarinnar á skemmtistað hinsegin í Orlando fyrr í sumar og sagði réttindabaráttunni aldrei ljúka, þó samfélaginu hefði miðað í rétta átt. „Frelsi hinsegin fólks er ekki eins harðsótt, hugrekkið sem þarf er ekki eins mikið, umburðarlyndi samfélagsins meira, lögin réttlátari.

Innan hinsegin samfélagsins hafa líka risið deilur. Þar finnst mörgum að enn sé verk að vinna, eftir því sem fjölbreytileikinn eykst. Og ugglaust eru þeir til sem finnst sjálfsagt að hommar og lesbíur búi saman, en eiga erfiðara með að taka undir drauma, óskir eða kröfur transfólks, eða annarra innan hinsegin samfélagsins. Allir eiga að sýna umburðarlyndi.“

Þá vék Guðni að íþróttahreyfingunni og hvatti alla sérstaklega til að taka á þeim fordómum sem enn þyrfti að glíma við innan hennar. „Á Íslandi hefur lesbía verið forsætisráðherra. Vonandi fáum við bráðum homma í eitthvert okkar ágætu karlalandsliða.

Við fögnum í dag frelsi og fjölbreytileika, samstöðu, umburðarlyndi og mannréttindum. Við erum hér öll á hátíð hinsegin fólks, en í lokin bið ég ykkur að hugleiða þetta: Í orðunum er viss þversögn, en er það ekki þannig að í raun erum við öll hinsegin á einhvern hátt? Þegar vel er að gáð er bara enginn eins og fólk er flest.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert