Maðurinn enn ófundinn

Frá aðgerðum lögreglu í Breiðholti á föstudagskvöldið en til átaka …
Frá aðgerðum lögreglu í Breiðholti á föstudagskvöldið en til átaka kom á milli hópa í Fellahverfi. mbl.is/Freyja Gylfadóttir

Lögreglan leitar enn manns sem talinn er tengjast átökum í Breiðholtinu á föstudagskvöldið. Að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirmanns rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, er vitað hver hann er en ekki hvar hann heldur sig. Rannsókn málsins er enn í fullum gangi.

Maður sem handtekinn var aðfaranótt laugardags vegna aðgerða lögreglu í Breiðholti var í héraðsdómi í gær úrskurðaður í viku gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Kona sem var handtekin með honum var hins vegar látin laus síðdegis í gær.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit ríkislögreglustjóra tóku þátt í aðgerðum í Fellahverfi en tilkynnt var um tvo skothvelli í hverfinu um hálfníuleytið á föstudagskvöldið. Tilkynningin var tekin alvarlega og var viðbúnaður lögreglu í samræmi við það og fólst m.a. í að lokað var fyrir umferð um svæðið. Fólk var til að mynda beðið að vera ekki á ferli í hverfinu á meðan aðgerðir lögreglunnar stæðu yfir.

Aðfaranótt laugardags sendi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu frá sér tilkynningu um að hún leitaði tveggja manna og ökutækis í kjölfar átakanna í Breiðholtinu en vitni sögðu að skotið hefði verið á bifreið á svæðinu. Tvímenningarnir eru grunaðir um að hafa staðið fyrir því. Annar þeirra var handtekinn í kjölfarið ásamt konunni sem nú hefur verið látin laus.

Bifreiðin sem skotið var á, rauð Toyota Yaris, fannst síðan í Breiðholti í gær og náði lögregla sambandi við þá sem höfðu verið í bifreiðinni þegar skotið var á hana og reyndust þeir ómeiddir. 

Lögreglan telur að atvikið í Fellahverfi tengist deilum innan þröngs hóps.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert