„Segja ESB lausnina á öllum vandamálum“

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Hvað er að vera jafnaðarmaður í dag? Hún [Oddný] hefur kannski ekki verið að kynna sér hvað við stöndum fyrir. En auðvitað erum við Píratar og Samfylking sammála um einhverja hluti eins og er hægt að segja um alla flokka sem eiga fulltrúa á þingi,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, um ummæli Oddnýjar Harðardóttur og Össurar Skarphéðinssonar í dag. 

Össur sagði í útvarpsviðtali í morgun að enginn munur væri á Pírötum og Samfylkingunni. Oddný G. Harðardóttir formaður flokksins tók ekki undir þau orð.

Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar.

Sjá frétt mbl.is: „Píratar eru ekki jafnaðarmenn“

„Við erum jafnaðarmenn og það vita allir hvaða verkefni við viljum leggja áherslu á ef við komumst í ríkisstjórn. Ég er ekki sammála því að það eigi með sama hætti við um Pírata,“ sagði Oddný í samtali við mbl.is í dag. 

Birgitta segist sjálf ekki vera viss um hvað Samfylkingin muni gera, komist hún í ríkisstjórn. 

„Ég veit heldur ekki hvað Samfylkingin vill gera ef hún kemst í ríkisstjórn. Það liggur ekkert fyrir enn þá og í raun liggur það ekki fyrir hjá neinum flokki. Fólk er að vinna í sinni grasrót að gera áætlanir um það hvað flokkarnir vilja gera ef þeir fá umboð til þess í kosningunum,“ segir Birgitta.

„Mér finnst við eiga margt sameiginlegt með þeim en stóri munurinn er sá að við höfum ekki ákveðið að taka línu um hvort við séum hlynnt því að ganga í ESB eða ekki. Þau eru kannski eini flokkurinn sem er með afgerandi stefnu um að ganga í ESB. Það er mjög stór munur því öll þeirra stefna hefur alltaf mótast af því að við göngum í ESB. Það hefur verið eina lausnin sem þau hafa við öllum vandamálum á Íslandi. Það er rosalega stór munur myndi ég segja,“ segir Birgitta. 

Segist ekki hafa talað fyrir dagsetningum

Oddný og Össur nefndu bæði að þeim hugnist ekki að leggja af stað í ríkisstjórnarsamstarf með niðurnegldar dagsetningar fyrir því hvenær á að vera búið að ljúka stjórnarskrármálinu og boða til kosninga að nýju. Birgitta segir þá níu mánuði sem hún nefndi fyrst ekki vera meitlaða í stein.

„Ég hef aldrei talað fyrir dagsetningum. Ég hef sagt að ef við gætum klárað málið á níu mánuðum þá væri ég til í það, en ég hef ekki nefnt dagsetningar. Endir á kjörtímabili er líka dagsetning og ég tel t.d. mjög brýnt ef það verður núna kosið í miðri fjárlagavinnu, að kosningaárið verði leiðrétt þannig að kosið verði um vorið næst.“

„Mér finnst svo fyndið hvernig þau hafa sett þetta upp. Ég sagði aldrei að ég krefðist þess að þetta yrði gert á níu mánuðum. En síðan var samþykkt stefna í kosningakerfi Pírata sem segir mjög skýrt að stjórnarskrármálið á að vera forgangsmál auk þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður.“ 

„Reyna að skapa sér sterkari stöðu í samningaviðræðum“

Birgitta segir að Vinstri grænir og Samfylkingin séu nú að tala með afgerandi hætti til þess að skapa sér sterkari stöðu í samningaviðræðum síðar meir.

„Ég held það sé rosalega gott að hafa það í huga að Samfylkingin og Vinstri grænir fengu tækifæri til að breyta stjórnarskránni en þau drógu málið mjög lengi. Málið var inni á þingi í heilt ár og þau náðu ekki að klára það. Það sama má segja um núverandi ríkisstjórn, hún er ekki að ná að klára sín mál og hún næði því ekki þótt hún hefði allt þingið fram í apríl.“

„Svo má segja um Samfylkingu og Vinstri græna að þau hafa ekki talað með jafnafgerandi hætti um heilt kjörtímabil áður og nú eru þau að reyna að festa sig í þessum níu mánuðum sem hafa verið nefndir og segja það vera bara ég að vera með einhverja taktík. En þau eru í raun bara að reyna að skapa sér sterkari stöðu í samningaviðræðum. Það er oft gert,“ segir Birgitta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert