Verða Íslandslán bönnuð?

Forsætisráðherra segir að frumvarp um verðtryggingu sé eitt þeirra mikilvægu …
Forsætisráðherra segir að frumvarp um verðtryggingu sé eitt þeirra mikilvægu mála sem ríkisstjórnin vill afgreiða áður en gengið verður til kosninga. mbl.is/Ómar

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra sagði í fréttum Ríkisútvarpsins í gær að til stæði að leggja fram frumvarp um verðtrygginguna á fyrstu dögum þingsins í næstu viku. Ekki stendur til að afnema verðtrygginguna með öllu, heldur munu aðgerðirnar í frumvarpinu miða að því að draga úr vægi hennar.

Rétt eins og frumvarpið um framtíðarfyrirkomulag séreignarsparnaðarins sagði forsætisráðherra að boðað verðtryggingarfrumvarp væri eitt þeirra mála sem ríkisstjórnin vildi afgreiða áður en gengið yrði til þingkosninga.

Forsætisráðherra sagði að unnið væri á grundvelli niðurstöðu meirihluta sérfræðingahóps um afnám verðtryggingar á nýjum neytendalánum, sem ríkisstjórnin skipaði sumarið 2013. Var það raunar eitt hennar fyrsta verk að skipa hópinn.

Meirihlutinn lagði til að algengasta lánaformið á Íslandi undanfarin ár, svonefnd Íslandslán, þ.e. verðtryggð jafngreiðslulán til fjörutíu ára, yrði bannað. Þess í stað yrði hámarkstími þeirra 25 ár. Þá var lagt til að lágmarkstími verðtryggða lána yrði hækkaður úr fimm árum í tíu. Ekki var hins vegar lagt til að verðtryggingin yrði afnumin með öllu. Fullt afnám verðtryggingar nýrra neytendalána krefðist meiri tíma og yfirlegu. Án vandaðs undirbúnings gæti afnám ógnað fjármálastöðugleika og rýrt stöðu neytenda og lánveitenda.

Frétt mbl.is: Séreignarsparnaðarleið fest í sessi?

„Eitraður kokteill“

Í máli nefndarmanna sérfræðingahópsins á blaðamannafundi, þegar skýrslan var kynnt, kom fram að sambland af jafngreiðslum og löngum lánstíma væri versta birtingarmynd verðtryggingar á Íslandi. Talaði Valdimar Ármann, hagfræðingur og fjármálaverkfræðingur, um „eitraðan kokteil“ í þessu samhengi.

Ingibjörg Ingadóttir, formaður sérfræðingahóps um afnám verðtryggingar á nýjum neytendalánum, …
Ingibjörg Ingadóttir, formaður sérfræðingahóps um afnám verðtryggingar á nýjum neytendalánum, kynnir skýrslu hópsins. mbl.is/Árni Sæberg

Til viðbótar við að banna lengri verðtryggð lán vildi nefndin beita hvötum til að auka vægi óverðtryggðra lána á kostnað verðtryggðra. Þannig yrðu vaxtabætur aðeins greiddar vegna vaxtagreiðslna en ekki vegna verðbótaþátta, fjármálafyrirtækjum gert skylt að hafa jafnvægi á milli verðtryggðra eigna og skulda þannig að viðvarandi ósamræmi yrði óheimilt og eftirlit hert með veðsetningarhlutföllum.

Tekjulágir fái aðstoð

Til þess að vega upp á móti áhrifum tillagnanna, eins og hærri greiðslubyrði í upphafi óverðtryggðra lána, lagði nefndin til að tekjulágir og þeir sem kaupa sér fyrstu íbúð sína fengju aðstoð, til dæmis með endurskipulagningu vaxtabótakerfisins og skattaafslætti. Fasteignakaupendur almennt fengju aðstoð eins og með því að fá að ráðstafa nýjum séreignarlífeyrissparnaði til lækkunar á greiðslubyrðinni.

Auk þess voru ýmsar aðrar mótvægisaðgerðir lagðar til eins og endurskoðun á húsnæðiskerfinu, ríkið yki vægi verðtryggðrar skuldabréfaútgáfu til að gefa lífeyrissjóðum annan verðtryggðan fjárfestingarkost en húsnæðislán og ýmislegt fleira.

Verðtrygging hefur verið samofin íslensku efnahagslífi í 35 ár. Engar hömlur hafa verið settar á verðtryggingu frá árinu 1998, en þær breytingar sem sérfræðingahópurinn lagði til yrðu því  fyrstu takmarkanir á notkun verðtryggingar í langan tíma.

Verðtrygging hefur verið samofin íslensku efnahagslífi í 35 ár.
Verðtrygging hefur verið samofin íslensku efnahagslífi í 35 ár. mbl.is/Golli

Þess má þó geta að Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, skilaði séráliti í nefndinni. Hann vildi ganga mun lengra og afnema verðtryggingu með öllu strax 1. júlí 2014. Sagði hann að hlutverk sérfræðingahópsins hafa verið að finna út hvernig ætti að afnema verðtrygginguna en ekki hvort það væri hægt. Tillaga meirihlutans fæli það hins vegar ekki í sér.

Ekki samstaða í samfélaginu

Framsóknarmenn hafa fyrir kosningar og á öllu þessu kjörtímabili lofað því að afnema verðtrygginguna. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins og fyrrum forsætisráðherra, sagði til að mynda fyrir síðustu þingkosningar að það væri einfalt mál að gera það, þó svo að kanna þyrfti vel afleiðingar þess. Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður flokksins, sagðist í útvarpsviðtali í síðasta mánuði vilja að frumvarp um afnám verðtryggingar yrði lagt fram nú þegar þing kemur saman á næstu dögum. Sjálfstæðisflokkurinn hefði þvælst fyrir málinu, en nú þyrfti hins vegar að láta á það reyna.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra. mbl.is/Golli

Standast ekki greiðslumat fyrir styttri lán

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur hins vegar talað á svipuðum nótum og meirihluti sérfræðingahópsins. Engin ástæða sé til þess að banna verðtryggð lán, en hins vegar sé mikilvægt að draga úr vægi Íslandslánanna.

Hann sagði í umræðum á Alþingi í febrúar að 40% þeirra sem taka Íslandslán myndu ekki standast greiðslumat fyrir styttri lán. Þetta hefði komið fram í mjög marktækum gögnum sem fjármála- og efnahagsráðuneytið hefði fengið um málið. 

Hann sagði málið nokkuð flókið viðfangs. Ef Íslandslánin yrðu afnumin gæti þurft að auka stuðninginn við þennan hóp með einhverjum hætti. Spurningin væri hvort það væri æskilegt. Mögulegt væri að finna leiðir til þess að halda þessum möguleika opnum fyrir allra lægstu tekjuhópana. Ekki mætti þrengja að þeim sem hefðu hvað minnst á milli handanna. 

Forsætisráðherra sagði á RÚV í gær að ekki stæði til að afnema verðtrygginguna með boðuðu frumvarpi. Ríkisstjórnarflokkarnir hefðu ólíka sýn í þessu máli. Einnig hefði ekki náðst samstaða í samfélaginu um að ganga svo langt. Boðað frumvarp, sem væri meira í takt við niðurstöðu meirihluta sérfræðingahópsins, væri þó kröftugt skref sem draga myndi úr vægi og nýtingu verðtryggðra lána.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert