Vill bætur vegna morðsins á Nadezdu

Julia Tarasova.
Julia Tarasova. mbl.is/Júlíus

Julia Tarasova, dóttir Nadezdu Eddu Tarasovu sem myrt var á heimili sínu á Akranesi fyrr á þessu ári, mun fara fram á bætur úr ríkissjóði til þolenda afbrota vegna andláts móður sinnar. Eiginmaður Nadezdu skaut hana til bana og svipti sig lífi í kjölfarið.

Rannsókn lögreglu á málinu lauk fyrr í sumar og lá þá fyrir niðurstaða í málinu. Þar sem sakborningurinn er látinn verður ekki dæmt í málinu og því nýtir Julia þetta úrræði.  

Guðmund­ur Val­ur Óskars­son skaut Nadezdu í hnakk­ann þar sem hún lá sof­andi í hjóna­rúmi í íbúð þeirra á Akra­nesi aðfaranótt miðviku­dags­ins 13. apríl. Því næst skaut hann sjálf­an sig og féll við það af rúm­stokkn­um, þar sem hann sat, niður á gólf her­berg­is­ins.

Helga Vala Helgadóttir er lögmaður Juliu og vinnur að bótakröfum fyrir hennar hönd. Annars vegar verður send krafa til lögreglu sem fer þaðan til bótanefndar og hins vegar verður gerð krafa í dánarbú hjónanna.

Málið hefur tekið mjög á Juliu að sögn Helgu Völu. „Þetta er hrikalega sorglegt og þungt mál. Það er auðvitað alveg svakalega þungt að fá svona fregnir, þó að hún hafi vitað að það væri erfitt hjá þeim,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Um bótasjóðinn gilda lög nr. 69/1995. Þar kemur fram að sjóðnum sé meðal annars ætlað að bæta andlát sem leiðir af brotum á almennum hegningarlögum. „Verði afleiðing hins refsiverða verknaðar sú að brotaþoli andast skulu bætur greiddar vegna hæfilegs útfararkostnaðar og bætur vegna missis framfæranda. Skilyrðið um að brot skuli varða við almenn hegningarlög er sams konar og gildir um líkamstjón vegna brota á almennum hegningarlögum (1),“ segir í lögunum.

Ju­lia ræddi við Önnu Marsi­bil Clausen, blaðamann mbl.is, um móður sína og var viðtalið birt á mbl.is og í Morg­un­blaðinu. Von­aðist Ju­lia til þess að sag­an kynni að bjarga öðrum kon­um frá sömu ör­lög­um og mættu móður henn­ar. Í viðtal­inu grein­di hún frá því að móðir henn­ar hefði tví­veg­is reynt að skilja við Guðmund Val, í seinna skiptið þrem­ur vik­um áður en hann myrti hana.

Fréttir mbl.is um málið: 

Skaut Nadezdu með byssu föður síns

Fundu þrjú skotvopn í íbúðinni

„Ég vil bara réttlæti“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert