Áttu fótum sínum fjör að launa

Húsnæði Jötunstáls er gjörónýtt en hér sést bifreiðin sem eldurinn …
Húsnæði Jötunstáls er gjörónýtt en hér sést bifreiðin sem eldurinn kom væntanlega upp í. Skessuhorn/MM

Starfsmenn vélsmiðjunnar Jötunstáls á Akranesi áttu fótum sínum fjör að launa er eldur kom upp í bifreið á verkstæðinu í morgun. Að sögn Ólafs Guðmundssonar, yfirlögregluþjóns á Akranesi, reyndu starfsmenn að slökkva eldinn en urðu að forða sér út þegar eldurinn magnaðist. Talsverðar sprengingar urðu í gaskútum inni á verkstæðinu og er húsnæðið mjög illa farið eftir eld og  reyk. Einhverjar skemmdir urðu einnig í fiskvinnslu sem er í sömu byggingu, aðallega vegna reyks.

Slökkviliðið á Akranesi varð að rjúfa hluta þaksins vegna eldsins en greiðlega gekk að slökkva. Ljóst þykir að eldurinn hafi komið upp í bifreiðinni en tæknideild lögreglunnar mun fara í vettvangsrannsókn á staðinn í fyrramálið. 

Hárrétt viðbrögð slökkviliðsmanns sem átti leið um

Þráinn Ólafsson, slökkviliðsstjóri á Akranesi, segir að þegar slökkviliðsmenn komu á staðinn um áttaleytið í morgun hafi húsið verið alelda og þeir því þurft að fara mjög gætilega í byrjun. Það hafi sennilega verið slökkviliðsmanni sem átti leið um að þakka að ekki fór verr því starfsmenn Jötunstáls hafi reynt að slökkva eldinn sjálfir. Þeir sáu reyk leggja frá verkstæðinu þegar þeir komu til vinnu og þegar inn var komið sáu þeir að reykurinn kom frá bifreið inni á verkstæðinu. Þeir reyndu að slökkva eldinn með slökkvitæki en slökkviliðsmaðurinn hafi séð gaskúta inni í rýminu og metið aðstæður rétt þegar hann skipaði þeim að forða sér út. Enginn slasaðist í eldsvoðanum. 

Að sögn Þráins er húsnæði vélsmiðjunnar gjörónýtt en aðeins eru tæp tvö ár síðan eldur kom þar upp síðast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert