Bóndi fékk vodkaflösku að gjöf

Bandarísku ferðalangarnir með drónann og vodkaflöskuna. Með þeim á myndinni …
Bandarísku ferðalangarnir með drónann og vodkaflöskuna. Með þeim á myndinni eru systur Hálfdans, þær Guðrún og Sigríður, ásamt Hafþóri Jakobssyni. Ljósmynd/Hálfdan Ómar Hálfdanarson

Hálfdan Ómar Hálfdanarson, skógarbóndi að Ytra-Seljalandi, fékk óvenjulega gjöf eftir að hann aðstoðaði bandaríska ferðalanga við að finna dróna sem þeir höfðu týnt í landi hans.

Að sögn Hálfdans Ómars sat hann heima í bæ undir húsveggnum þegar sendibíll kom aðvífandi og keyrði innundir bæinn. Hann kom þó ekki upp hlaðið heldur sneri við.

Klukkutíma seinna kom sami bíll aftur, stoppaði lengra frá og kom fólk þá gangandi heim að bænum.

Vindurinn hreif drónann með sér

„Þau báru sig illa. Þau höfðu verið við Seljalandsfoss en það var heilmikill norðanvindur þann dag. Þau höfðu verið að láta drónann sinn fljúga en vindurinn hreif hann með sér og hann skall utan í klettavegg fyrir ofan fossinn og inn á heiðina, sunnan við, þar sem hann hvarf yfir brúnina,“ segir Hálfdan.

Fengu sér staup

Ferðalangarnir vildu ekki fara og sækja drónann nema fá leyfi frá Hálfdani, sem hann veitti góðfúslega. Þegar þau komu til baka með drónann, algjörlega óskemmdan, voru þau svo ánægð að þau náðu í tveggja lítra sexeimaðan vodka út í bíl og færðu honum að gjöf.

„Við fengum okkur eitt staup þarna og þetta smakkaðist mjög vel,“ segir Hálfdan, ánægður með gjöfina.

Hann segir erlenda ferðamenn sem hann aðstoðar yfirleitt mjög þakkláta en hann hafi samt ekki átt von á neinni gjöf frá þeim bandarísku, hvað þá vodkaflösku.  

„Mér datt í hug að þau hefðu óttast að við myndum eigna okkur drónann þar eð hann hefði lent í okkar landi og orðið svona ánægð þegar við gerðum ekki tilkall til hans."

Vodkaflaskan sem um ræðir.
Vodkaflaskan sem um ræðir. Ljósmynd/Hálfdan Ómar Hálfdanarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert