Pilturinn mun sæta geðrannsókn

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að nítján ára piltur, sem grunaður er um tvær nauðganir, skuli sitja í gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna til 19. ágúst. Lögregla fór fram á að hann myndi sæta gæsluvarðhaldi til 2. september. 

Dómarar í Héraðsdómi Reykjavíkur komust meðal annars að þeirri niðurstöðu að æskilegt hefði verið, miðað við gögn málsins, að geðrannsókn færi fram á piltinum á meðan hann sæti gæsluvarðhaldi. 

Í úrskurðinum segir einnig að vísbendingar séu um að pilturinn gangi ekki heill til skógar og hefur hann sjálfur lýst því að hann telji sig geðveikan. Þegar hann var handtekinn vegna seinna málsins sagðist hann hafa verið búinn að panta tíma á göngudeild geðdeildar 9. eða 10. ágúst. 

Í niðurstöðu dómsins segir að þar sem geðrannsókn hafi verið ákveðin og pilturinn hafi samþykkt að gangast undir hana þá þyki dómnum rétt að hafa gæsluvarðhaldið styttra en lögregla krafðist þannig að gefist þá tækifæri fyrr en ella að meta hvort skilyrðum 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt, þ.e. að hann verði hugsanlega vistaður á sjúkrahúsi eða annarri viðeigandi stofnun. 

Í báðum málunum saka stúlkurnar, sem Fréttatíminn hefur sagt að séu fimmtán ára, piltinn um að hafa nauðgað sér. Hann hafi einnig beitt þær hótunum og líkamsmeiðingum. Í báðum málunum telur lögreglan rökstuddan grun um nauðgun. Byggir hún það m.a. á frásögnum vitna og rannsóknum á vettvangi. 

Í fyrra málinu kemur fram að lögreglu á Suðurnesjum hafi borist tilkynning frá Neyðarmóttöku 25. júlí um að þangað hefði ung stúlka leitað vegna nauðgunar. Lýsti hún því að pilturinn, sem nú hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald og fjallað er um hér að ofan, hefði nauðgað henni tvisvar á heimili hans. Við skýrslutöku sagðist pilturinn ekki muna hvort hann hafi haft samræði við stúlkuna og bar fyrir sig geðræn veikindi. 

Í seinna málinu greindi önnur stúlka frá því að pilturinn hafi farið með sig í partí 31. júlí. Hann hafi farið með hana í herbergi þar sem hann sagði að hann ætlaði að tala við hana. Þar hafi hann aftur á móti meðal annars neytt hana til að veita sér munnmök. Hótaði hann henni einnig líkamsmeiðingum. Við skýrslutöku neitaði pilturinn sök. 

Héraðsdómur féllst á að brot mannsins væru þess eðlis að varðhald væri nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Stutt sé á milli meintra brota, en tæp vika hafi liðið frá því tilkynnt hafi verið um hin meintu kynferðisbrot. Með vísan til framangreinds ætli lögregla að sakborningur muni halda áfram brotum meðan málum hans sé ekki lokið. Þá sé það mat lögreglu að áframhaldandi gæsluvarðhald sé nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum sakbornings,“ segir í úrskurðinum.

 Frétt mbl.is: 19 ára grunaður um tvær nauðganir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert