Hóta landverði meiðyrðamáli

Rannsókn lögreglu í veiðiþjófamálinu svonefnda í Hornvík á Hornströndum miðar …
Rannsókn lögreglu í veiðiþjófamálinu svonefnda í Hornvík á Hornströndum miðar vel. Ljósmynd/Rúnar Karlsson

Forsvarsmenn Strandferða ehf. hafa hótað Jóni Smára Jónssyni, landverði í Hornstrandafriðlandinu, meiðyrðamáli vegna ummæla hans í kjölfar Hornvíkurmálsins sem kom upp fyrr í sumar.

Samkvæmt heimildum BB þarf Jón Smári að greiða Strandferðum tvær milljónir króna innan nokkurra daga, ella verður höfðað meiðyrðamál.

Jón Smári vill ekki tjá sig um málið að svo stöddu. Í samtali við BB segir hann málið vera til skoðunar hjá Umhverfisstofnun.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður staðfestir við BB að hann hafi sent tvö kröfubréf fyrir hönd umbjóðenda sinna vegna ummæla sem féllu í fjölmiðlum í júní eftir Hornvíkurferð þriggja manna. Annað kröfubréfið var sent til Jóns Smára og hitt til Rúnars Óla Karlssonar, eins eigenda Borea Adventures á Ísafirði.

Rúnar Óli í félagi við fleiri komu að mönnunum í neyðarskýlinu í Höfn í Hornvík og voru þar ýmis ummerki um að þeir hefðu stundað ólöglegar skotveiðar í friðlandinu. Fram hefur komið að Strandferðir fluttu mennina frá Norðurfirði til Hornvíkur, en forsvarsmenn fyrirtækisins sögðu í tilkynningu í júní að þeir hefðu ekkert vitað um fyrirætlan mannanna eða tilgang ferðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert