Mun hrista upp í stuðningsliðinu

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Golli

„Þetta mun vekja athygli á prófkjörinu okkar og gera það meira spennandi. Ég hef verið oddviti í sjö ár og leitt flokkinn í kjördæminu í gegnum tvennar kosningar. En á þeim tíma hefur Suðurkjördæmi orðið eitt sterkasta vígi flokksins á landsvísu,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.

Vísar hún í máli sínu til þess að Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri, hefur tilkynnt að hann sækist, líkt og Ragnheiður Elín, eftir oddvitasæti í kjördæminu, en prófkjör fer þar fram 10. september næstkomandi.

Páll tilkynnti um framboð sitt fyrr í dag og sagðist þá stefna á 1. sæti listans. „Ef sjálfstæðismenn í kjördæminu ætla mér hins vegar eitthvert annað sæti á listanum, þá er ég fús til þess að taka því. En ég býð mig fram í fyrsta sætið,“ segir hann.

Ragnheiður Elín segir fjölmarga þegar hafa haft samband við sig og finnur hún því fyrir miklum stuðningi. „Ég finn fyrir gríðarlega breiðum stuðningi og er fólk að gefa sig fram við mig alls staðar að,“ segir hún og bætir við að útspil Páls mun því vafalaust hrista upp í stuðningsmannaliði hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert