Hvetur fólk í berjamó

Áhugasöm í berjamó í Biskupstungum.
Áhugasöm í berjamó í Biskupstungum. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Fólk ætti ekki, og hreinlega má ekki, að mati Sveins Rúnars Haukssonar, læknis og berjaáhugamanns, láta sumarið líða hjá án þess að fara í berjamó því árið stefnir í mjög gott berjaár. „En það verður ekki gott nema fólk fari í berjamó. Það er til einskis að sprettan sé góð og gjöful ef fólk tínir ekki,” segir Sveinn Rúnar.

Hann segir berjasprettuna á góðum árum sem þessu vera svo gjöfula að það sé margfalt meira en nóg af berjum fyrir alla. „Það er alveg óhætt að fara að byrja. Aðalbláberin eru orðin þroskuð og bragðgóð, það vantar aðeins upp á bláberin en vel er hægt að handtína góð ber innan um. Krækiberin bíða svo eftir því að vera tínd en ekki skilin eftir.”

Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og berjaáhugamaður.
Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og berjaáhugamaður. mbl.is

Eflaust velta reynsluminni berjatínslumenn því fyrir sér hvar eigi nú að byrja. Hvaða áhöld þurfi til tínslunnar og á hvaða berjamið skuli róið. mbl.is hafði því samband við Svein Rúnar og fékk hann til þess að leiðbeina fólki í gegnum fyrstu berjatínsluna. „Fólk ætti alls staðar að finna fyrir því að það er velkomið í berjamó,” er fyrsta ráðið sem Sveinn Rúnar gefur byrjendum.

Góð berjalönd í kringum Reykjavík

Hann segir það liggja beint við að benda á Heiðmörk sem berjaland Reykvíkinga. „Heiðmörkin hefur verið vinsæl alveg síðan ég var krakki og miklu lengur,” segir hann en þar eru í raun öll ber að finna að hans sögn þó svo að sérstaklega hafi verið vinsælt að tína bláber í Heiðmörkinni.

Þá nefnir hann Geitháls og næstu heiðar og hæðir í kringum borgina, s.s. við Rauðavatn. „Ef farið er Suðurlandsveginn má halda áfram þar Nesjavallaleiðina, þar er mjög skemmtilegt í berjamó.”

Krækiber um alla móa.
Krækiber um alla móa. mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir

Sé Vesturlandsvegurinn farinn nefnir hann Mosfellsdalinn og heiðarnar beggja vegna vegarins, „Þar er heilmikið af berjum, sjálfur hef ég sótt í Tröllafosslandið, það er fallegt og öll ber að fá; aðalbláber, bláber, krækiber og hrútaber. Það er stórt svæði sem tekur marga,” segir Sveinn Rúnar.

Loks nefnir hann Esjurætur, þar séu skemmtilegar brekkur og vinsæl berjalönd. „Svo í Hafnarfirði, hjá Völlunum og Ásfelli. Það er að vísu búið að byggja þarna mikið sem hefur skorið af berjalöndunum en það er aldeilis stutt fyrir fólk að fara í berjamó í Hafnarfirði. Í Hafnarfjarðarhrauni er skemmtilegt að tína,” segir hann.

Segir hann að fyrir íbúa í Breiðholti og Norðlingaholti sé eins aldeilis stutt í berjamó. Það dugi fólki nánast að fara út um dyrnar og þá sé það komið í berjamó.

Sníkir sælgætisbox undir berin

Að sögn Rúnars er það númer eitt að vera með ílát meðferðis nema fólk ætli að tína upp í sig. „Ílátin geta verið alls konar, sumir vilja halda á lítilli fötu en sjálfur hef ég sníkt í sjoppum box undan sælgæti. Það þarf bara að þrífa lakkrís- og piparmyntubragðið af þeim,” segir Sveinn Rúnar en hann bendir á að sælgætisboxin sitji vel í berjamó og taki um tvö kíló af berjum.

Bláberin eru bragðgóð. Gott er að tína þau í sælgætisbox …
Bláberin eru bragðgóð. Gott er að tína þau í sælgætisbox að sögn Sveins Rúnars. mbl.is/Arnaldur Halldórsson

„Mér finnst gott að ílátið geti staðið sjálft við hliðin á mér þannig ég geti haft báðar hendur frjálsar. Það skiptir miklu máli að láta aðra höndina leika um lyngið. Það á sérstaklega við þegar maður er farinn að tína með tínum svo ekki sé verið að rífa og tæta án þess að halda um lyngið,” segir hann.

Sveinn Rúnar segir að ef fólk ætlar að tína til vetrarins og gefa sér góðan tíma til tínslunnar geti verið gott ráð að hafa plastpoka í rassvasanum sem varaílát. „Það getur komið fyrir að þú sért kominn langt frá bílnum og búinn að fylla ílátið þegar þú sérð einmitt lyng sem þú vilt ekki skilja eftir,” segir hann. „Það fer yfirleitt ekki illa með berin þó þau séu í plastpoka í smá stund.”

Hann segir að ef fólk ætli að tína fram á kvöld komi ennislukt að góðu gagni, en hann ætli þó ekki að mæla með slíku sem staðalbúnaði.

Ágætis siður að biðja um leyfi þar sem við á

Sveinn segist ekki hafa orðið var við marga berjatínslumenn að undanförnu. „Ég tók eftir því fyrir nokkrum dögum á einstökum góðviðrisdegi að ég sá enga í Mosfellsheiðinni að tína. Ég verð oft fyrir vonbrigðum með það hversu fáir fara í berjamó,” segir Sveinn Rúnar. „En það er ekki nema 11. ágúst, fólk er ekki vant því að fara svona snemma. Þetta er yfirleitt seinni partinn í ágúst og fyrstu vikuna í september.”

Sveinn Rúnar frystir mikið af berjum þannig að hann hafi nóg til „daglegs brúks“. Berin eru m.a. notuð í krækiberja- og aðalbláberjasaft, sultur og hrútaberjahlaup. Ýmsar æfingar eru gerðar, t.a.m. rabarbara blandað við krækiber og sulta búin til. Tekur hann þrjár vikur á hverju ári í berjatínslu. „Megnið af sumarfríinu fer í berjafrí, ég geymi það í það og fer um landið ef því er að skipta.”

Hann segir að sé fólk að tína í sveitum landsins þá sé það góð regla að biðja einfaldlega um leyfi á sveitabæjunum. „Það er ævinlega auðfengið að fá að tína. Maður fær yfirleitt tilsvör um að það sé ósköp lítið eða ekkert af berjum, en velkomið að tína finni maður eitthvað. Svo finnur maður oftast nær heilmikið,” segir hann. „Það er ágætis siður að fara að bæjum þar sem því er að skipta, einnig til að spyrja hvar sé helst að fara til berja.”

Að lokum gefur Sveinn Rúnar nýliðum gott ráð til að þekkja muninn á bláberjum og aðalbláberjum. Fyrir utan að bláberjalyngið er dekkra en aðalbláberjalyngið þá er hægt að auðkenna þau með því að kreista berin og sjá litinn á kjötinu. Liturinn er sterkur í aðalbláberjum þannig að fingurnir verða rauðir á meðan kjöt bláberjanna er glært eða hvítt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert